Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Læknaðist af HIV eftir beinmergsígræðslu

05.03.2019 - 04:54
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
HIV smitaður karlmaður í Lundúnum virðist læknaður af veirunni. Samkvæmt rannsókn sem kynnt verður á læknaráðstefnu í dag finnst veiran ekki lengur í manninum, sem er kallaður Lundúnamaðurinn af rannsakendum. Þetta yrði þá í annað sinn sem slíkt verður staðfest. Veiran hefur ekki fundist í manninum í rúmlega eitt og hálft ár segir í rannsókninni.

Lundúnamaðurinn á það sameiginlegt með fyrri einstaklingnum sem læknaðist af HIV-veirunni að hann fékk beinmergsígræðslu. Þær eru notaðar gegn blóðkrabbameini, og flytja stofnfrumur úr fólki sem er með ónæmi fyrir HIV veirunni. AFP fréttastofan hefur eftir Ravindra Gupta, aðalhöfundi vísindagreinarinnar sem birt er í Nature og prófessor við Cambridge-háskóla, að rénun veirunnar í Lundúnamanninum sýni að bati Berlínarmannsins hafi ekki verið einsdæmi. 

Um 37 milljónir manna eru með HIV veiruna. Nærri 60 prósent þeirra ná að halda veirunni niðri með lyfjakúr, sem fólk verður að taka alla ævi til að hann virki að sögn Gupta. Hann segir það skapa mikil vandræði í þróunarlöndum þar sem færri hafa efni á meðferðinni. Um milljón manna láta lífið á ári hverju af völdum veirunnar.

Beinmergsígræðsla er langt í frá einföld. Gupta og félagar hans leggja áherslu á að aðgerðin sé bæði hættuleg og sársaukafull og því ekki fýsilegur kostur. Bati Lundúnar- og Berlínarmannanna eftir slíka aðgerð getur hins vegar leitt vísindamenn á rétta braut til að finna meðferðarleiðir gegn veirunni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV