Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lækkun kosningaaldurs þokast nær í þinginu

22.03.2018 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Samþykkt var á Alþingi nú á fjórða tímanum frumvarp að lokinni annarri umræðu um að lækka kosningarétt til sveitarstjórnarkosninga í 16 ár. Frumvarpið gengur nú aftur til stjórnskipunar og eftirlitsnefndar og síðan til þriðju umræðu sem sennilega verður á morgun. Það kemur því í ljós þá hvort níu þúsund ungmenni bætist í hóp nýrra kjósenda til sveitarstjórnarkosninga í vor.

Að frumvarpinu standa þingmenn úr öllum flokkum. Líflegar umræður voru um frumvarpið á Alþingi í dag. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kvaðst í umræðunum í dag styðja frumvarpið þrátt fyrir stuttan fyrirvara. Hún kvaðst ætla að vinna að því af fullum heilindum að auka fræðslu um kosningar til ungmenna.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði umræður um atkvæðagreiðsluna vera þær mest spennandi sem hann hafi tekið þátt í á Alþingi. Hann kvaðst vera hlynntur því að lækka kosningaaldurinn og sjái því ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja frumvarpið.

Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, kvaðst ekki vera fylgjandi frumvarpinu. „Látið börnin vera!“ sagði hún í umræðum um málið og sagði það skyldu að vernda börn gegn hvers kyns áróðri þangað til þau verða 18 ára gömul.

„Það er kominn tími til að ungt fólk geti haft áhrif á það hvernig þessu samfélagi er stjórnað,“ sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og einn flutningsmanna frumvarpsins við umræðurnar í dag. 

Víða um heim hafa verið stigin skref í þá átt að lækka kosningaaldur, að því er segir í greinargerð með frumvarpinu. Misjafnt sé eftir ríkjum hversu langt hafi verið gengið. Dæmi séu um að kosningaaldur hafi verið lækkaður í sérstökum kosningum, svo sem í þjóðaratkvæðagreiðslum.