Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lægra hlutfall innflytjenda útskrifast

04.04.2019 - 11:04
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Lægra hlutfall innflytjenda en innfæddra útskrifast úr framhaldsskólum hér á landi, samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Skólaárið 2016 til 2017 útskrifuðust 24 prósent fólks á aldrinum 18 til 22 ára með íslenskan bakgrunn. Sé litið til fjölda fólks á þessum aldri sem er fætt erlendis og á eitt erlent foreldri er hlutfall útskrifaðra af mannfjölda 16,5 prósent. Meðal innflytjenda er hlutfallið töluvert lægra, eða 8 prósent.

Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar eru innflytjendur þeir sem fæðast erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Skiptinemar eru taldir með innflytjendum í samantekt Hagstofunnar.

Fleiri yngri en 20 ára útskrifast

Skólaárið 2016 til 2017 var hlutfall stúdenta af fjölda tvítugra 69,8 prósent. Hlutfallið fór síðast undir 70 prósent skólaárið 2010 til 2011, að því er segir á vef Hagstofunnar. Vorið 2017 voru 24,6 prósent stúdenta 19 ára og yngri en 44 prósent voru eldri en tvítugir. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur farið hækkandi undanfarin ár. Skólaárið 2013 til 2014 voru 17,8 prósent stúdenta 19 ára og yngri og 44,4 prósent 20 ára. Stytting náms til stúdentsprófs var að litlu leyti komin til framkvæmda þau ár sem þessar tölur ná til, að því er fram kemur í samantektinni. 

Karlar meirihluti þeirra sem ljúka sveinsprófi

624 brautskráningar með sveinspróf voru skólaárið 2016 til 2017 og voru þær sjö færri en árið áður. Brautskráningar með iðnmeistarapróf voru 154, heldur færri en árið á undan. Karlar voru rúmlega þrír af hverjum fjórum sem luku sveinsprófi og fjórir af hverjum fimm útskrifuðum iðnmeisturum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir