Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lægðirnar komu í veg fyrir stórtjón

21.03.2015 - 19:44
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Lægðirnar sem dunið hafa á landsmönnum í vetur hafa komið í veg fyrir stórtjón af völdum gosmengunar frá Holuhrauni. Þetta segir Sigurður Reynir Gíslason jarðefnafræðingur sem staddur er við Grímsvötn á Vatnajökli við rannsóknir ásamt þremur öðrum.

Fer vel um þá í svítunni 

„Við erum að taka snjókjarna af Vatnajökli. Við lögðum upp á fimmtudag. Það var brjálað veður í nótt síðan í morgun fórum við að laga hæðamæli sem sýnir hæðina á Grímsvatnafjallinu og ætluðum síðan að taka sýni áðan en þá skall aftur á leiðindaveður. Við erum á snjótroðara og síðan aftan í honum er hús sem við köllum svítuna og þar er eldunaraðstaða, skrifstofa og gistipláss. Þannig að það fer ljómandi vel um okkur,“ segir Sigurður.

Vítt og breitt um jökulinn

Á morgun er svo förinni heitið að Bárðarbungu og Dyngjujökli, ef veður leyfir. Næstu sex daga ætla leiðangursmenn vítt og breitt um Vatnajökul. Síðan stendur til að fara að svæðinu vestur af Snæfelli og taka sýni sem og í Oddsskarði. Þau eiga að sýna hve mikið sitji eftir af menguninni sem barst frá eldgosinu í Holuhrauni. 

Svolítið eins og gömlu handritin

„Við eigum þó von á að rigning undanfarna mánuði hafi skolað drjúgt af menguninni burt bæði af láglendi og alveg upp undir efstu eggjar á Austfjörðum en hérna uppi á Vatnajökli hefur rigningin ekki enn sem komið er náð upp á jökulinn. Og það er það sem við erum að sækjast eftir núna með þessum ískjörnum. Þetta er svolítið eins og gömlu handritin. Við getum rakið hvernig mengun hefur safnast hérna upp í snjónum á meðan á gosinu stóð. Það er mjög mikilvægt að ná þessu áður en það kemur rigning hérna í sumar því þá þurrkar rigningin þessar upplýsingar út,“ segir Sigurður Reynir. Hópurinn er með stóran vagn í eftirdragi með fimm stórum fiskikörum sem fylla á með sýnum. 

Heppin með leiðindaveðrið

Sigurður Reynir segir að ryk sjáist í snjónum eftir mengunina. „Það sem við höfðum mestar áhyggjur af varðandi mengunina frá Holuhrauni var að hún myndi safnast fyrir í snjónum og eins efst á vatnasviðum vítt og breitt um landið. Það sem er svo hættulegt er að fyrsta bráðnunin leysir megnið af menguninni úr læðingi. Í henni getur verið allt að fimm sinnum meira af mengun en að meðaltali í snjónum. Við höfum verið svo blessunarlega heppin með þetta leiðindaveður í vetur því það hafa komið blotar og leyst þetta hægt og bítandi úr snjónum og út í vatnið eftir því sem gosinu vatt fram,“ segir Sigurður Reynir. 

Leysingavatn ógnar vatnalífríki

Helst þurfi að hafa áhyggjur af leysingavatni úr fjöllum á Norðausturlandi því getur stafað hætta af því fyrir lífríki í ám og vötnum. Sýnin sem Sigurður Reynir og félagar eru að safna eiga að leiða í ljós hvort það þurfi að hafa áhyggjur af þessu. Sigurður Reynir segir að alla lægðirnar sem gert hafa landsmönnum gramt í geði í vetur séu í raun blessun. „Það hefur verið mikil blessun þetta ömurlega veður því bæði hvað þetta var mikil veðurhæð og mikill hiti sem kom með þessu. Það kom í veg fyrir að ég tel stórtjón. Það þeytti upp ryki norðan Vatnajökuls og rykið vinnur gegn súrri mengun af því að það virkar eins og basi. Svo losnuðu mengunarefni, a.m.k. á láglendi, úr snjónum og fór hægt og bítandi út í vatnið. Ef það hefðu verið stillur og snjóað í allan vetur þá hefði þetta verið miklu meiri mengun í nærumhverfinu og á Íslandi. En í staðinn þeyttist þetta út af landinu og tjónið var lágmarkað. En núna er náttúrulega tími til kominn að þessu veðri linni,“ segir Sigurður Reynir Gíslason. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV