Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

L-listinn tapar miklu fylgi á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd:
Fylgi L-listans á Akureyri, Lista fólksins, hefur minnkað um helming frá síðustu sveitarstjórnarkosningum ef marka má nýja könnun Fréttablaðsins sem birtist í dag. L-listinn hlaut 45 prósent atkvæða í kosningunum 2010 og sex bæjarfulltrúa af 11, eða hreinan meirihluta.

Framboðið mælist nú með 22 prósent fylgi og fengi þrjá menn kjörna.Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn stærstur á Akureyri og mælist nú með 23 prósent fylgi sem myndi tryggja honum þrjá bæjarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð í síðustu kosningum og fékk þá 13 prósent atkvæða og einn bæjarfulltrúa.

Framsóknarflokkurinn stendur nánast í stað, fékk 12,8 prósent atkvæða fyrir fjórum árum en mælist nú með einu prósenti minna sem tryggir flokknum einn bæjarfulltrúa. Björt framtíð er þriðji stærsti flokkurinn, sé miðað við könnunina, og mælist með 18,3 prósenta fylgi og fengi tvo bæjarfulltrúa.

Vinstri grænir mælast með 8,2 prósent fylgi og fengju einn fulltrúa, rétt eins og fyrir fjórum árum. Samfylkingin mælist með 13,9 prósenta fylgi, sem er fjögurra prósenta hækkun frá síðustu kosningum.

Samfylkingin fengi þó aðeins einn fulltrúa líkt of fyrir fjórum árum.

Listi Dögunar mælist með tveggja prósenta fylgi og fengi engan mann í bæjarstjórn.