Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kyssandi sjóliðinn á Times Square látinn

Mynd með færslu
 Mynd:

Kyssandi sjóliðinn á Times Square látinn

19.02.2019 - 04:44

Höfundar

Sjóliðinn George Mendonsa er látinn, 95 ára að aldri. Mendonsa er þekktastur fyrir mynd sem tekin var af honum ungum þar sem hann heldur um unga konu og kyssir hana þéttingsfast á Times Square í New York, þar sem fólk var saman komið að fagna lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Mendonsa gegndi skyldustörfum fyrir Bandaríkjaher á Kyrrahafi í síðari heimsstyrjöldinni. Hann var í leyfi þegar myndin náðist af honum.

Ljósmyndarinn, Alfred Eisenstaedt, lýsir því þannig í sjálfsævisögu sinni að hann hafi fylgt Mendonsa eftir þar sem hann hljóp eftir götunni og greip hverja þá stúlku sem hann fann. Á hlaupunum náði hann svo þessari heimsfrægu mynd af sjóliðanum Mendonsa að kyssa hjúkrunarfræðinginn Gretu Zimmer Friedman. Myndir Eisenstaedts voru birtar í tímaritinu Life árið 1945. 

Sharon Molleur, dóttir Mendonsa, staðfesti í gær að faðir hennar hafi látið lífið á dvalarheimili í Middletown í Rhode Island ríki á sunnudag. Friedman lést árið 2016, þá 92 ára gömul.