Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kýrnar grétu ekkert

25.11.2015 - 11:02
Það er stór ákvörðun að taka sig upp eftir 40 ára búskap með kindur og kýr - og flytja í fjarlæga sveit. Fjölskyldan að Látrum við Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi ákvað að láta verða af þessu í sumar. Börnin vildu gjarnan koma inn í búskapinn með foreldrunum, en það var ómögulegt við Djúp, þar sem enginn er skólinn og langt í alla þjónustu. Þá var bara að stökkva í djúpu laugina, leigja jörð á Snæfellsnesi og flytja allt heila klabbið suður: Skepnur, tæki, vélar, innbú, verkfæri...

Sigmundur H. Sigmundsson er fæddur og uppalinn á Látrum. Hann ætlaði sér alltaf að verða bóndi, og þau Jóhanna María Karlsdóttir, kona hans, komu snemma inn í búskapinn og tóku svo við af foreldrum Sigmundar. Þau eiga fjögur börn og þar sem skólahald lagðist af á 10. áratugnum við Djúp, þurfti Jóhanna að búa á Ísafirði á vetrum með yngri börnin tvö á meðan þau gengu í skóla. Það eru 127 kílómetrar frá Látrum á Ísafjörð og 101 kílómetri á Hólmavík, svo það var ekki um það að ræða að skutlast með krakkana á morgnana. Við þessar aðstæður var mjög erfitt fyrir börnin að koma inn í búskapinn með sínar fjölskyldur þegar þau voru orðin fullorðin, þrátt fyrir að langa til þess. 

„Ég ætla ekki að fara að leggja það á mín börn í framtíðinni að þurfa að ferðast yfir 120 kílómetra til að fara í skóla eða eins og mamma og pabbi  sem voru í fjarbúð allt frá því að ég byrjaði í grunnskóla þar til að yngri bróðir minn útskrifaðist.“

Þetta segir Jóhanna María Sigmundsdóttir, yngri dóttir þeirra hjóna, en Jón, eldri bróðir hennar, býr að Syðstu-Görðum með sína fjölskyldu og foreldrar hans að Mið-Görðum með Sigmundi Geir, yngsta bróðurnum. Hann er líka ánægður með umskiptin, enda mun auðveldara að komast í framhaldsskóla í Borgarnesi og ríkari og fjölbreyttari félagsskapur fyrir hann í grenndinni. 

Jóhanna yngri situr á þingi fyrir Framsóknarflokkinn, er í námi á Bifröst og reynir að komast í mjaltir alltaf þegar mögulegt er. Hún er búfræðimenntuð og veit, rétt eins og faðir hennar, hvað hana langar til að gera.

„Ég vonast til þess að bæði staðurinn hérna og umhverfið í landbúnaðinum leyfi það að ég geti fengist við þetta í framtíðinni.“

Kýr eru vanafastar og lítt hrifnar af breytingum, hvað þá flutningum landshorna á milli. En með því að raða þeim á bása í sömu röð og í gamla fjósinu og mikilli viðveru í því nýja, þá varð aðlögunin skjót. Engin harmakvein eins og eru víst tíð þegar kýr eru ósáttar við breytingar. Aðstæður eru líka miklu betri í nýjum heimkynnum , básarnir stærri og mjaltagryfja svo hægt er að standa uppréttur við mjaltirnar. Það var ekki hægt fyrir vestan og fyrir vikið voru hné og bak bóndans alveg að verða komin með nóg.

 

Þrátt fyrir alla vinnuna sem fylgir svona flutningum og tregann við að kveðja sín gömlu heimkynni - þá hefur gleðin þó yfirhöndina, því nú er búið að koma hlutum þannig fyrir að stórfjölskyldan geti haldið áfram að byggja upp sitt bú - saman.

 

 

thoraa's picture
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV