Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kynþáttafordómum mótmælt í Evrópu

18.03.2018 - 06:32
epa02162522 The Houses of Parliament are pictured in London, Britain 18 May 2010. The House of Commons returns to work on 18 May, with 227 MPs starting work at Westminster for the first time, the largest number in a generation.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Mörg þúsund manns komu saman í miðborgum Lundúna og Vínar og mótmælti kynþáttahatri og vexti öfgafullra hreyfinga. Mótmælendurnir í Lundúnum komu saman nærri Oxford Circus og gengu fylktu liði að Whitehall. 

Al Jazeera hefur eftir Abraham Khoudari, 18 ára Sýrlendingi, að kynþáttafordómar séu að miklu leyti duldir í Bretlandi. Það sé vegna þess að fordómarnir séu ekki gegn neinum einum hópi og þeir séu oft ómeðvitaðir. Það geri þá í raun enn verri segir Khoudari. Hann segir hryllilegt að vita til þess að þjóðernissinnar vaði nú uppi, séu komnir á þing og í valdastöður. Við það fjölgi þeim sem þori að breiða út fordómafullar skoðanir sínar, sem verði til þess að hatursglæpum fjölgar.

Um mánuður er síðan lögreglumaðurinn Mark Rowley, sem stýrði hryðjuverkadeild lögreglunnar, varaði við hættunni á hryðjuverkum af hálfu þjóðernissinnaðra öfgaafla. Hann sagði lögregluna hafa komið í veg fyrir fjórar slíkar árásir á þessu ári.

Í Austurríki náðu mótmælin til stjórnvalda. Nokkur þúsund manns komu saman í miðborg Vínar til þess að mótmæla aukinni misskiptingu og kynþáttafordómum í landinu. Margir héldu á mótmælaspjöldum þar sem stjórnvöld voru fordæmd, en síðan í desember hefur stjórn hins íhaldssama Þjóðarflokks og hægri sinnaða Frelsisflokks verið við völd. Meðal forgangsmála stjórnarsamstarfsins er fækkun innflytjenda. Þannig á að hraða ferli hælisleitenda, en jafnframt gera þeim erfiðara fyrir að fá hæli í landinu.
Mótmælin héldust í hendur við alþjóðlegan dag Sameinuðu þjóðanna gegn kynþáttafordómum og misskiptingu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV