Umhverfisstofnun birti í dag tillögur að friðlýsingu þriggja svæða á hálendinu. Það eru Hólmsá, Tungnaá og Jökulfall og Hvítá. Tillögurnar eru gerðar á grundvelli flokkunar þeirra í verndarflokk rammaáætlunar sem Alþingi samþykkti árið 2013.
Að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu er þetta í fyrsta sinn sem tillaga að friðlýsingu sem byggir einvörðungu á rammaáætlun er send út. Alþingi samþykkti að friðlýsa svæðin gegn orkunýtingu.
„Það er ánægjulegt að sjá fyrstu svæðin send út til kynningar nú í dag,“ ef haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins. „Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um sérstakt átak í friðlýsingum, meðal annars friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar en líka svæða á eldri náttúruverndaráætlunum. Þessar friðlýsingar hafa verið samþykktar af Alþingi en hafa enn ekki náð fram að ganga.“