Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynna tillögu að friðlýsingu Látrabjargs

18.04.2019 - 18:03
Ferðamenn í Látrabjargi.
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Umhverfisstofnun hefur kynnt tillögu að friðlýsingu Látrabjargs og nágrennis og óskað eftir athugasemdum við tillöguna. Unnið hefur verið að friðlýsingu Látrabjargs undanfarin ár með samtali við landeigendur, sveitarfélag og fleiri aðila.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur sagt að þær náttúruperlur sem eru ófriðlýstar og í mestri hættu séu nú þegar í friðlýsingarferli. „Það er Látrabjarg, gjáin í Þjórsárdal, Kerlingafjallasvæðið og Geysir,“ sagði Guðmundur Ingi í sjónvarpsviðtali í febrúar.

Hann segist vongóður um að ríkisstjórnin samþykki friðlýsingu þessara svæða. Umhverfisstofnun hefur unnið að undirbúningi friðlýsingar Látrabjargs frá árinu 2011. Frestur til þess að gera athugasemdir við friðlýsingarskilmála er til og með 18. júlí næstkomandi.

Tillagan gerir ráð fyrir að flatarmál hins friðlýsta svæðis verði 2.340 hektarar. Svæðið á að ná frá Þambaraflögum, eftir Brunnanúp, að Hálsvörðu gegnum Lambá, þar sem vötnum hallar fram á bjargbrún, í sjó fram og alla leið að landamerkjum við Eyjaskorarnúp frá Melalykkju yfir miðjan Þorsteinshvamm. Friðlandið nær til hafsbotns, lífríkis og vantsbols í einn kílómetra frá landi.

Í tillögunni segir að meginmarkmið friðlýsingarinnar sé að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla, einkum varpsvæði sjófugla. „Friðlýsingunni er jafnframt ætlað að vernda og viðhalda náttúrulegu ástandi ásamt mikilfenglegu landslagi frá sjávarmáli upp á hæstu brúnir og ein mestu fuglabjörg við Norður-Atlantshaf,“ segir í tillögunni.

Mynd með færslu