Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kynna málefnasamning og embætti í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Meirihluti Framsóknarflokks, L-lista og Samfylkingar í nýrri bæjarstjórn Akureyrar kynna og undirrita málefnasamning sinn í dag. Dagvistunarmál verða ofarlega á baugi í samningnum.

Ekkert gefið upp um nýjan bæjarstjóra

Undirskriftin og kynningin fer fram í Menningarhúsinu Hofi klukkan 11 í dag. Meirihlutinn hefur ekki gefið út hver verði bæjarstjóri eða hvort embættið verði auglýst. Þá hafa engar upplýsingar fengist um hvernig skipun embætta verður. Þetta eru sömu flokkar og skipuðu meirihluta síðasta kjörtímabils. Flokkarnir fengu tvo bæjarfulltrúa hver. Sjálfstæðisflokkur fékk þrjá menn inn eftir kosningarnar, Vinstri græn einn og Miðflokkurinn einn.

Skipan nýrra embætta kynnt í dag  

Á tímabilinu 2014 til 2018 var Framsóknarflokkurinn með formennsku í bæjarráði, íþróttaráði, skipulagsráði, umhverfis- og mannvirkjaráði og kjaranefnd. 

L-listinn var með forseta bæjarstjórnar og formann í frístundaráði. 

Samfylkingin var með formennsku í fræðsluráði og velferðarráði. 

Eiríkur Björn Björgvinsson hefur verið bæjarstjóri Akureyrar síðan 2010 en hann ætlar nú að snúa sér að öðru.