Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kvörtun hefur ekki áhrif á skipun skiptastjóra

29.03.2019 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur segir að þótt kvartað hafi verið yfir öðrum skiptastjóra WOW air vegna annars þrotabús hafi sú kvörtun ekki haft áhrif á skipun hans nú. 

Fleiri en einn mjög óalgengt

Lögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson voru skipaðir skiptastjórar yfir WOW air í gær. Sárasjaldgæft er að skipaðir séu tveir skiptastjórar þótt þrotabú séu mjög stór. Má því ætla að skiptin á WOW séu sérlega flókin. 

Skrýtið að skipa mann sem kvartað var yfir

Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir gagnrýndu í Morgunútvarpi Rásar 2 val á skiptastjórunum. Engar reglur séu um hvernig skiptastjórar séu valdir. Þá sé ágreiningsmál fyrir héraðsdómi vegna þrotabús annars fyrirtækis þar sem Sveinn Andri sé skiptastjóri og fjórir kröfuhafar þess bús séu óánægðir með þóknun hans og fleira. Fram hefur komið á mbl.is að einn kröfuhafanna sé fyrrverandi eigandi fyrirtækisins þ.e.a.s. EK1923

„Þar af leiðandi þykir mér í það minnsta svolítið skrýtið að það sé verið að skipa mann sem er umdeildur akkúrat út af hans embættisgerðum sem skiptastjóri yfir svona stóru búi,“ sagði Kristrún Elsa í þættinum. 

„Þessi bú þau gefa af sér gríðarlegar tekjur þannig að þettta er mikið hagsmunamál fyrir lögmenn að þeiri hæfustu fái þetta og þá komum við inn á það sem er gallinn í þessu, það eru engar reglur. Þetta er bara matskennd ákvörðun“, sagði Saga Ýrr í þættinum. 

Þurfa að vera vanir og hafa góða umgjörð

Í lögum um gjaldþrotaskipti er kveðið á um störf skiptastjóra og hæfi þeirra. Símon Sigvaldason dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sem skipaði skiptastjórana, segir engar skráðar reglur um valið en að miðað sé við ákveðin grunnsjónarmið.

Varðandi stór þrotabú séu valdir þeir, sem áður hafi leyst úr stórum búum, og að þeir hafi sýnt að þeir geti tekist á við svo viðamikið og flókið verkefni. Hitt sjónarmiðið sé að skiptastjórar í stórum þrotabúum þurfi að hafa þannig umgjörð að þeir geti leitað til annarra með ýmsa þætti vinnunnar. Slíka möguleika hafi stórar lögmannsstofur en einyrkjar síður. Hér áður að minnsta kosti hafi og verið litið til þess hvort skiptastjórarnir hafi réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti.

Skiptastjórum beri fyrst og fremst að vernda þá sem eiga kröfur í búið og gæta hagsmuna þeirra. Oft sé erfitt samband milli skiptastjóra og fyrrverandi fyrirsvarsmanns félags þ.e.a.s. þrotamanns. Því beini þrotamenn oft kvörtunum til héraðsdóms sem dómari meti. Símon segist hafa vitað af umræddri kvörtun en að hann hafi ákveðið að kvörtunin gerði ekki að verkum að hún útlokaði Svein Andra frá frekari störfum skiptastjóra.