Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kvikusöfnun skýri skjálftavirkni í Bárðarbungu

04.01.2016 - 10:46
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
„Það er líklega kvikusöfnun í þessu kvikuhólfi undir Bárðarbunguöskjunni, það er þensla á svæðinu og samhliða henni eru skjálftar,“ segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðskjálftavár hjá Veðurstofu Íslands. Tveir jarðskjálftar yfir þrír að stærð mældust í Bárðarbunguöskjunni í nótt. „[Jarðskjálftarnir] eru ekki fleiri en rétt eftir gos en það sem hefur gerst frá miðjum september er að þeir hafa stækkað.“

Eldstöðvar fari aftur að þenjast út og safna kviku eftir eldgos. Kristín segir að búist sé við að það taki langan tíma fyrir eldstöðina að komast aftur í það ástand að hún geti valdið öðru eins gosi og í Holuhrauni. „Eldstöðin er vöktuð, við sjáum þessa breytingu og erum hugsi yfir henni.“

Stærðin á skjálftum hafi aðeins stækkað frá miðjum september og orkuútlausnin aukist.  „Og greinilega merki frá því eftir gos að það er þensla á svæðinu sem bendir til kvikusöfnunar þarna á 10 til 15 kílómetra dýpi,“ segir Kristín. Ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur haldist staðan óbreytt. „Á meðan þetta er svona þá má túlka það svona að kvikusöfnun sé í gangi. Hún hefur aukist frá því um miðjan september en verið stöðug síðan þá.“ Þá hafi skjálftar, um það bil þrír að stærð, orðið tíðari síðastliðna mánuði.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV