Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kvikusöfnun í Kötlu

13.09.2018 - 11:58
Innlent · Náttúra · Katla
Mynd með færslu
 Mynd: Evgenia Ilyinskaya - RÚV
Það þarf að fylgjast með Kötlu, segir eldfjallafræðingur. Nýjar rannsóknir benda til þess að kvika safnist upp undir eldstöðinni. Gríðarlega mikið af koltvísýringi leggur frá stöðinni. Hópur íslenskra og breskra vísindamanna hefur kannað gasútstreymi frá Kötlu með sérútbúinni rannsóknarflugvél. 

Katla er ein af stærstu megineldstöðvum landsins. Hún gýs að jafnaði á 40 til 80 ára fresti. Síðast gaus í Kötlu árið 1918.

Evgenia Ilyinskaya, eldfjallafræðingur við háskólann í Leeds í Bretlandi, er í hópi breskra og íslenskra vísindamanna sem hefur mælt gasútstreymi frá Kötlu.

Mynd með færslu
 Mynd: Evgenia Ilyinskaya - RÚV

„Það sem kom í ljós var eitthvað sem kom okkur rosalega á óvart. Það var ofsalegt magn af koltvísýringi sem við fundum að var að flæða upp úr Kötlu. Og það fór eiginlega ekki á milli mála að þetta kom upp úr Kötlu frekar en einhverri annarri eldstöð eða einhverju öðru þarna nálægt. Magnið af koltvísýringi sem við erum að sjá er um 20 kílótonn á dag sem er rosalega mikið og setur Kötlu í þriðja sæti á heimsvísu af öllum eldfjöllum sem búið að er að mæla koltvísýring úr,“ segir Evgenía.

Þýðir það að það sé eitthvað að gerast þarna, að það sé einhver eldvirkni, von á gosi?

„Já, það er náttúrulega það sem allir vilja vita og við líka. Svona rosalegt magn af koltvísýringi gerir það svolítið ólíklegt að það sé bara jarðhitakerfi sem er að framleiða svona mikið gas. Það er líklega kvika þarna undir sem þarf til að framleiða svona mikið af gasi. Hins vegar, nú erum við búin að mæla þarna tvö ár í röð. Við mældum í október 2016 og október 2017 en okkur vantar fleiri mælingar. Við þurfum að vita hvort gasið sé alltaf svona stöðugt í svona miklu magni eða hvort það er að aukast. Það er vitað frá öðrum eldsvöðvum í heimi frá t.d. á Havaí og í Alaska að koltvísýringum getur aukist vikum eða nokkrum árum fyrir eldgos. Þetta er bara alveg klárt dæmi um það að það þarf að fylgjast með Kötlu Hún er ekki eða gera ekki neitt og þessar niðurstöður sýndu að það er eitthvað í gangi þarna,“ segir Evgenía.

Alls óvíst sé hvenær Katla gjósi. Evgenía segir að talsvert af metani hafi mælst. Þá hafi lykt af brennisteinsvetni fundist nálægt jöklinum, þegar flogið hafi verið yfir Emstruá og Múlakvísl. Gasið geti verið í hættulegu magni við árnar og í íshellum.