Kvikmyndasafnið hættir í Bæjarbíói

Mynd með færslu
 Mynd:

Kvikmyndasafnið hættir í Bæjarbíói

02.05.2013 - 15:15
Forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands segir að ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar um að fela bæjarstjóra að hefja viðræður við Gaflaraleikhúsið um rekstur og umsjón Bæjarbíós, þýði að sýningum safnsins í bíóinu verði hætt og sýningaraðstaða safnsins verði tekin niður.

Í bókun bæjarráðs í morgun kemur fram að við þessa útfærslu verði eftir fremsta megni tekið tillit til þarfa Kvikmyndasafnsins vegna sýningarhalds þess í húsinu.

Í bréfi, sem Erlendur Sveinsson, forstöðumaður Kvikmyndasafnsins, ritaði til bæjarráðs í síðustu viku, með meðal annars fram að hann telji að sýningar kvikmynda á vegum safnbíós eins og Kvikmyndasafnið rekur geti ekki átt samleið með rekstri leikhúss í sama húsnæði. Hann telur jafnframt að með þessari ákvörðun sé verið að stíga óheillaspor fyrir kvikmyndamenningu þjóðarinnar. 

Fram kemur í bréfi Erlendar að safnið hafi, með dyggum stuðningi mennta-og menningarmálaráðuneytisins, fjárfest í margvíslegum endurbótum hússins fyrir tugmilljónir króna. „Með þeirri endurgerð og virðingu fyrir sögu hússins hefur því verið bjargað frá þeirri niðurlægingu sem það var komið í eftir margra ára leikhússtarfsemi þar fyrir aldamótin síðustu.“

Erlendur segir jafnframt að með þessari ákvörðun sinni verði bæjarstjórn Hafnarfjarðar að axla ábyrgð af að umbylta ómetanlegri menningarsögulegri djásn, sem Bæjarbíó er í bæði íslensku og norrænu samhengi, og leggja um leið kvikmyndasýningar niður í bænum til frambúðar.

Erlendur sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann stæði við bréfið, bókun bæjarráðs um að taka ætti tillit til þarfa Kvikmyndasafns Íslands vegna sýningarhalds þess í húsinu, breytti engu fyrir safnið, hann stæði við þá fullyrðingu sína að kvikmyndasýningar á vegum Kvikmyndasafnsins og leikhúsrekstur ættu ekki samleið. Því myndi Kvikmyndasafnið taka niður sýningaraðstöðu sína og skoða stöðu sína.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Vilja að Gaflaraleikhúsið fái Bæjarbíó