Kvikmyndaiðnaðurinn veltir sjö milljörðum

Mynd með færslu
 Mynd:

Kvikmyndaiðnaðurinn veltir sjö milljörðum

10.11.2014 - 12:09
Ríkissjóður endurgreiðir 1,4 milljarða á þessu ári vegna kvikmyndaframleiðslu og hefur þessi upphæð aldrei verið hærri. Kvikmyndaiðnaður á Íslandi veltir því rúmum sjö milljörðum á þessu ári. Langstærstur hluti þeirrar upphæðar er tilkominn vegna erlendra kvikmyndaverkefna.

Á fjárlögum ársins 2014 var gert ráð fyrir 837 milljóna króna framlagi í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Í frumvarpi til fjáraukalaga, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi á föstudag,  bætast 580 milljónir við þá upphæð - heildarupphæðin er því 1,4 milljarðar.

Íslenska ríkið endurgreiðir tuttugu prósent af þeim kostnaði sem framleiðendur leggja út fyrir hér á landi. Upphæðin sem þeir hafa notað nemur því sjö milljörðum íslenskra króna.

Í lögum um endurgreiðslur er þó heimilt að fresta þessum greiðslum fram á næsta fjárlagaár ef fyrirhuguð upphæð á fjárlögum hefur klárast. Heildarupphæðin í ár verður því að einhverju leyti notuð til að greiða fyrir eldri verkefni, meðal annars Noah eftir Darren Aronofsky. Haft var eftir Helgu Margréti Reykdal, framkvæmdastjóra Truenorth, í Fréttablaðinu í september að framleiðendur þeirrar myndar hefðu enn ekki fengið 20 prósenta endurgreiðsluna. 

Helga Margrét sagði í samtali við fréttastofu í morgun að upphæðin á fjáraukalögum væri ánægjuleg - margt hafi verið í hægagangi vegna þessarar óvissu. Hún segir að heildarupphæðin sé jákvæða, hún sýni að þessi iðnaður sé í örum vexti.

Háar endurgreiðslur haldast nánast undantekningarlaust í hendur við heimsóknir erlendra tökuliða hingað til lands og  sýna tölurnar algjöra sprengingu í þessum heimsóknum.  

Til að mynda var gert ráð fyrir að endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu fyrir árið 2011 næmu 300 milljónum, tveimur árum seinna var þessi upphæð komin í 900 milljónir. Á fjárlögum ársins 2015 er síðan gert ráð fyrir að verja 1,1 milljarði í endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu.

[email protected]