Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Kvika safnast saman undir Kötlu

07.09.2011 - 12:42
Allt bendir til þess að kvika sé að safnast saman undir Kötlu. Það þarf ekkert endilega að þýða að hún gjósi segir jarðeðlisfræðingur. Engar skýringar hafa fundist á óróanum sem mældist undir Mýrdalsjökli í gær.

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, telur ólíklegt að vatn hafi valdið óróanum, líklegra sé að jarðhiti hafi orsakað hann. Virkni í Kötlu sé enn mikil og nokkuð margir skjálftar mælst þar að undanförnu og mælast enn.

"Það er aukin virkni í Mýrdalsjökli og er búið að vera undanfarnar vikur," segir Magnús Tumi. "Það er aukinn jarðhiti og aukin smáskjálftavirkni. Þetta kemur fram á mælum, svo kom þetta fram í hlaupinu í sumar og stækkandi sigkötlum í Mýrdalsjökli."

Magnús Tumi segir að ástæða sé til að fylgjast vel með Kötlu.

"Þetta er virkni sem kemur fram í sumum eldfjöllum áður en þau búa sig undir gos en það er náttúrulega alls óvíst að þessi atburðarrás endi með gosi," segir Magnús Tumi. "En það lítur vissulega út fyrir að hún sé að búa sig undir slíkt. Þessi merki tákna yfirleitt það að kvika sé að koma inn í eldfjallið á frekar litlu dýpi og þá aukast líkurnar á gosi. En ef við horfum á dæmin sem við höfum þá er algengara að svona virkni deyi út áður en til eldgoss kemur en það getum við aldrei vitað fyrirfram, hvaða óróahryna endar með gosi og hver lognast út af. Við verðum bara að fylgjast með."

Vísindamenn Almannavarna ætla að funda eftir hádegi til að bera saman bækur sínar og meta stöðuna

"Það er ekkert neyðarástand í gangi eða neitt slíkt," segir Magnús Tumi. "En þessi aukna virkni sem er búin að vera undanfarið og þessi órói sem kom í gær ýta undir það að það sé farið yfir þessa hluti og menn beri saman bækur sínar."