
Kvenkyns viðmælendum fjölgar lítillega
Mun færri konur í fréttum en viðtalsþáttum
Konur eru 38% viðmælenda í innlendum sjónavarps- og útvarpsþáttum en karlar 62%. Færri konur eru viðmælendur í fréttum en í þáttum og er hlutfallið 33%, sem er þó prósentustigi hærra en í fyrra.
Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, segir þetta skref í rétta átt. „Í allri umræðu hjá okkur um að fjölga konum til dæmis í stjórnum félaga eða fjölga konum í efra lagi fyrirtækja og víðar, nefndum o.s.frv., í pólitíkinni og allt það, þá sjáum við þetta í samhengi. Með því að auka ásýnd kvenna og sjá fleiri konur í fjölmiðlum þá eru meiri líkur á að ná hraðari árangri í öðru,“ segir Rakel í samtali við Morgunvaktina á Rás 2.
Aðspurð um áhrif þess á fjölda kvenkyns viðmælenda fjölmiðla að helstu áhrifamenn, til dæmis hjá stjórnvöldum, eru karlkyns, segir hún það vissulega geta haft áhrif, en þá sé mikilvægt að fjölmiðlamenn leggi sig fram við að finna kvenkyns viðmælendur. „Þetta er hluti af endurspegluninni, það er staðreynd. En þetta er ákveðin vinna, bara það að fiska upp fleiri konur sem eru vel hæfar og vel menntaðar og upplýstar til þess að koma fram sem sérfræðingar og ræða einhver mál, það kostar ákveðna vinnu en er vel þess virði vegna þess að þá fáum við meiri breidd í efni og umræðu.“
Munur milli miðla og á milli þátta
Niðurstöður mælingar Creditinfo voru kynntar í hjá Blaðamannafélaginu í morgun. Þar kom fram að fréttatímar RÚV standa sig betur en fréttatímar 365. Konur eru 37% viðmælenda hjá RÚV á móti 63% karla. Þær eru fimm prósentustigum færri hjá 365, eða 32% á móti 68%.
Þátturinn Samfélagið á Rás 1 stendur sig best. Þar eru konur 51% viðmælenda en karlar 49%. Reykjavík Síðdegis stendur sig verst, með hlutfallið 24% konur á móti 76% karla og hlutfall kvenna dalar milli ára.