Kútter Sigurfari verði varðveittur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Kútter Sigurfari verði varðveittur

20.04.2015 - 22:37

Höfundar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ætlar að beita sér fyrir því að kútter Sigurfari verði varðveittur. Vinnuhópur á vegum ráðuneytisins tekur verkefnið að sér.

 

Kútter Sigurfari sem byggður var í Englandi árið 1885 hefur staðið á byggðasafninu á Görðum á Akranesi frá árinu 1975. Skipið er að grotna niður og talið að grípa þurfi til aðgerða fljótt ef á að bjarga því frá glötun.

Málefni kútters Sigurfara hafa reglulega verið rædd opinberlega og í dag tók Guðbjartur Hannesson málið upp við forsætisráðherra á Alþingi.

„Telur forsætisráðherra mikilvægt að varðveita kútter Sigurfara og ef svo er hyggst hæstvirtur forsætisráðherra beita sér fyrir framtíðarlausn á varðveislu kúttersins í samræmi við ósk bæjarráðs Akraneskaupstaðar,“ spurði Guðbjartur. 

Forsætisráðherra ítrekaði mikilvægi þess að varðveita sjávarminjar hér á landi og rétt sé að leita ýmissa leiða til þess. Á vegum ráðuneytisins sé í undirbúningi vinnuhópur til að greiða úr þessu verkefni sem sé að hans mati löngu tímabært. „Stutta svarið við henni er einfalt. Já, já ég tel mikilvægt að varðveita kútter Sigurfara og já ég hyggst beita mér fyrir því eins og kostur er miðað við þær aðstæður sem háttvirtur þingmaður lýsti.“