Kútter Sigurfari líklega rifinn

Mynd með færslu
 Mynd:

Kútter Sigurfari líklega rifinn

26.01.2015 - 15:14
Kútter Sigurfari, sem hefur sett mark sitt á safnasvæðið á Akranesi, verður að líkindum rifinn, segir formaður bæjarráðs. Bærinn hefur ekki efni á því einn að endurgera skipið og aðrir hafa ekki komið að verkefninu.

Kútterinn sem áður var bæjarprýði er illa farinn og orðinn að slysagildru. Menningar- og safnanefnd leggur til að fimm milljóna króna styrkur úr Græna hagkerfinu til endurbóta á kútternum verði afþakkaður þar sem hann dugi hvergi nærri til, að auki verði forstöðumanni Safnasvæðisins á Akranesi falið að gera áætlun um að taka skipið niður og fjarlægja.

Ólafur Adolfsson, formaður bæjarráðs, segir að sú verði líklega raunin.„Staðan er þannig að Akraneskaupstaður hefur ekki efni á því að gera upp kútterinn. Það er ljóst að slíkar endurbætur nema verulegum upphæðum. Við erum að tala um tugi milljóna eða hundruð og það eru ekki fjármunir sem Akraneskaupstaður hefur upp á að hlaupa. Þá er næsta skref annað hvort að færa verkefnið til ríkisins eða hreinlega rífa kútterinn, því að hann er orðinn verulega fúinn og illa farinn og það er hreinlega hætta af honum eins og staðan er núna.“

Ólafur rifjar upp að árið 2007 hafi ríkið lofað 60 milljónum en það fé hafi aldrei skilað sér þrátt fyrir að gengið hafi verið eftir því. Ólafur segir að miðað við fyrri sögu málsins sýnist honum ekki að aðrir komi að þessu með sveitarstjórnum Akraness og Hvalfjarðarsveitar. „En auðvitað er það þannig að ríkið á bara að taka þetta verkefni í fangið og það verði í höndum ríkisins að varðveita kútterinn ef mönnum sýnist svo.“

Málið hefur ekki verið rætt í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar sem á tíu prósenta hlut í minjasafninu.

Það hefur stundum verið rætt um þrjú kennileiti Akraness, Sementsverksmiðjuna, Kútter Sigurfara og fótboltann. Aðspurður hvort það sé ekki mikil breyting ef tvennt af þessu hverfur á braut segir Ólafur: „Ég held að í hugum margra eru þetta ákveðin kennileiti fyrir Akranes. Ég reikna nú með að á sementsreitnum verði einhverjar skemmtilegar hugmyndir útfærðar og það verði prýði fyrir Akranes. Einnig er það að Kútterinn hefur verið einkennistákn safnasvæðisins okkar og margir sjá fyrir sér safnasvæðið þar sem kútterinn er í forgrunni, það mun breytast eitthvað. En hvað varðar fótboltann þá er vona til þess að við munum spjara okkur vel í sumar. Það á eftir að koma í ljós en ég á von á að við förum glaðir og kátir inn í sumarið.“

Tengdar fréttir

Akraneskaupstaður

Vill hluta Kútter Sigurfara í sundur

Akraneskaupstaður

Styrkjasérfræðingur til bjargar kútter

Vesturland

Kostar 113 milljónir að byggja yfir kútter

Innlent

Þurfa að bjarga skipinu eða farga