Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Kúluskíturinn er að hverfa

28.06.2012 - 19:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Kúluskíturinn í Mývatni er að hverfa. Þetta sýna rannsóknir vísindamanna, en vatnið er annar tveggja staða í heiminum þar sem þetta sérstæða og friðaða náttúruundur er að finna.

Japanski plöntulífeðlisfræðingurinn Isamu Wakana er hér á landi í sjötta sinn til þess að rannsaka kúluskítinn í Mývatni en þessi sérstaka vatnaplanta finnst einungis þar og í Akanvatni í Japan. Í dag var hann að við köfun í vatninu að viðstöddu starfsfólki Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn og kom það ekki til af góðu. 

„Við fengum grunsemdir fyrir tveimur árum síðan að kúluskítnum  hefði fækkað svo mikið núna að það væri nánast ekkert eftir af honum," segir Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn. „Þegar við fundum hann hér fyrst 1978 þá var mjög mikið af honum, þá voru tugir milljóna af kúluskít í Mývatni, núna eru þetta nokkur hundruð sem virðast vera eftir."

Nú finnast kúlurnar dreifðar á frekar litlu svæði og eru ekki eins og þær eiga að sér að vera.  „Þær eru frekar slappar. ekki svona stinnar og fallegar eins og við eigum að venjast heldur eru þær slappar. holar að innan og hafa það greinilega ekkert mjög gott eins og stendur," segir Árni. 

Árni segir að ekki sé vitað hvað valdi því hvað kúluskítnum fækkar hratt og mikið, það þurfi að rannsaka betur en hann bendir á að kúlurnar séu viðkvæmar fyrir straumum og birtuskilyrðum. Birtan fari mikið eftir því hve mikið er af svokölluðu leirlosi í vatninu.

„Það eru blágrænar bakteríur sem að skyggja á botninn. Og þegar er mikið af þeim þá er nánast engin birta við botninn og það er slæmt fyrir kúluskítinn," segir hann. 

„Leirlosið er yfirleitt mælikvarði á mengun af einhverju tagi. næringarefnamengun sem oft er frá þéttbýli eða landbúnaði eða þá einhvers konar lífrænum iðnaði," segir Árni.

„Við höfum ekki góðar mælingar á því  en það virðist hafa verið að aukast þannig að tímabilið sem það er í vatninu hefur lengst. Áður var þetta tímabil bara á miðju sumri en nú virðist það hafa verið að lengjast."