Kubbar risavaxið Titanic úr Lego

20.11.2014 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Ég trúði ekki að þetta myndi gerast, segir 11 ára drengur sem er kominn langt með að byggja 6,5 metra líkan af skemmtiferðaskipinu Titanic. Framkvæmdin hefur ekki gengið áfallalaust, þó að ekki hafi farið eins illa fyrir eftirmyndinni og fyrirmyndinni.

Það var í maí sem ellefu ára gamall einhverfur drengur hóf smíði á líkaninu af Titanic.

„Ég reyndi að spyrja mömmu hvort ég gæti prófað að spyrja Lególand hvort ég gæti byggt þetta stóra skip, en ég trúði ekki að þetta myndi gerast og ég bara veit ekki hvað gerðist. Þetta kom bara rétt svona", segir Brynjar Karl Birgisson.

Brynjar fékk módel og myndir af skipinu og afi hans gerði svo teikningu, þar sem kubbafjöldinn í hvern hluta var reiknaður út. Síðan hófst Brynjar handa með Mána vini sínum: „Þetta hefur bara gengið vel en aftan á skipinu hefur allt hrunið og ég var bara alveg miður mín". 

„Það var ekki límt á síðast og það var verið að gera festingar en það var svo - ég laga þetta - það var svona mikið, en þegar ég setti festingarnar þá varð það meira svona þannig að það hrundi niður", segir Brynjar.

Ólíkt fyrirmyndinni lifði líkanið þetta af og er búið að laga endann sem hrundi. Líkanið er sex og hálftur metri að lengd og þarf 56.000 kubba í það. Lególand hefur staðfest að þetta skip verði það stærsta sem hefur verið sett saman úr legókubbum. Smíðin er úthugsuð og ekki aðeins legókubbar notaðir.

„Hérna, sem þú sérð hér, er brauðplast. Þetta hér er sama og þetta hér. Af því að - prófaðu að lemja hér. Þetta verður svona sterkt", segir Brynjar.  

Nú er skrokkurinn hins vegar að mestu tilbúinn en þó er ýmislegt eftir, strompar, bönd og fánar, auk þess sem fleira fólk á eftir að bætast við. En hvað á svo að gera við skipið?

„Setja þetta á safn". Hvar? „Kannski ætla ég að búa til skemmtigarð sem heitir Lego Iceland".  

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi