Kúabændur vilja meiri útflutningstolla

07.02.2014 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Kúabændur ætla að fara fram á rýmri útflutningstolla á mjólkurafurðum til Evrópu verði innflutningstollar á ostum felldir niður. Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, segir að einhliða breytingar á kerfinu skaði innlenda landbúnaðarframleiðslu.

Kúabændur hafa nýtt alla útflutningstolla á mjólkurvörum til Evrópusambandsins með útflutningi á skyri til Finnlands. Sigurður segir að verði stjórnvöld við beiðni Haga um afnám innflutningstolla á sérostum ætli bændur að fara fram á aukna heimild til útflutnings á mjólkurvörum. Nú þegar hafi verið kannaðir möguleikar á því að fá útflutningstolla rýmkaða.

„Við teljum eðlilegt að þetta sé meðhöndlað með svipuðum hætti og gerist annars staðar. Ef stjórnvöld ætla sér að gera breytingar eða niðurfellingar á tollum af þessu tagi, þá sé það gert í gagnkvæmum samningum, þannig að okkar leið sé opnuð þá um leið inn á markaði annarra landa.“

Tollaumhverfi sem þjóðir búa til sé hugsað til að verja innlenda framleiðslu og tryggja stöðu hennar. Sigurður segir að allar einhliða breytingar sem gerðar séu á tollaumhverfi landbúnaðarins geti haft þau áhrif að skerða möguleika og stöðu innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Í þessu tilfelli mjólkurframleiðenda. „Það hlýtur þá að þurfa að skoða þá einhverjar breytingar aðrar í kjölfarið þannig að staða framleiðendanna sé tryggð um leið.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi