Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

KSÍ styður Infantino í forsetakjöri FIFA

epa05097568 UEFA General Secretary Gianni Infantino arrives on the red carpet prior to the FIFA Ballon d'Or awarding ceremony at the Kongresshaus in Zurich, Switzerland, 11 January 2016.  EPA/WALTER BIERI
Gianni Infantino, forseti FIFA. Mynd: EPA - KEYSTONE

KSÍ styður Infantino í forsetakjöri FIFA

21.01.2016 - 06:20
Frambjóðendur í forsetakjöri Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, keppast nú við að safna fylgi fyrir kosningarnar í næsta mánuði. Knattspyrnusamband Íslands styður Gianni Infantino, framkvæmdastjóra evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA.

Geir Þorsteinsson staðfestir þetta í viðtali við Fréttablaðið í dag. Infantino etur kappi við jórdanska prinsinn Ali bin al-Hussein sem segir íraska knattspyrnusambandið styðja við bakið á sér. Ali hlaut stuðning UEFA þegar hann bauð sig fram gegn Sepp Blatter í maí. Að sögn Washington Post er búist við því að fleiri Asíuríki bætist í hóp stuðningsmanna Alis, þrátt fyrir að bareinski sjeikinn Salman bin Ebrahim al-Khalifa, forseti asíska knattspyrnusambandsins, sem einnig hyggst bjóða sig fram, segist hafa einróma stuðning Asíuríkja. Ali segist einnig njóta stuðnings nokkurra Afríku og Mið-Ameríkuríkja.

Sviss og Þýskaland eru bæði búin að lýsa stuðningi við Infantino. Reinhard Rauball, formaður þýska knattspyrnusambandsins, segir Infantino vera frambjóðanda Evrópu og þann besta sem kostur er á í kjörinu. Forráðamenn knattspyrnusambanda í Evrópu ráða ráðum sínum á morgun í Nyon í Sviss.

Staðgengill Platinis?

Infantino hefur gegnt hlutverki framkvæmdastjóra UEFA lengi og unnið við hlið Michel Platini, fyrrum formanns UEFA, sem hugðist bjóða sig fram í forsetakjörinu. Siðanefnd FIFA dæmdi Platini í átta ára bann frá knattspyrnu í desember og þar með þurfti hann að draga framboð sitt til baka. Í kjölfarið á rannsókn siðanefndarinnar á málum Platini bauð Infantino sig fram. Áður en nefndin dæmdi í máli hans sagði Infantino að hann myndi draga framboð sitt til baka ef Platini yrði kjörgengur.

Tveir til viðbótar bjóða sig fram til forseta FIFA, Frakkinn Jerome Champagne og Tokyo Sexwale frá Suður-Afríku. Nýr forseti verður kosinn 26. febrúar.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Platini hættir við forsetaframboð

Fótbolti

FIFA staðfestir 5 forsetaframbjóðendur