Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

KSÍ greiðir jafnar bónusgreiðslur óháð kyni

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, og Guðni Bergsson formaður sambandsins. - Mynd: Tomasz Kolodziejski / RÚV

KSÍ greiðir jafnar bónusgreiðslur óháð kyni

04.01.2018 - 13:59
Stjórn KSÍ hefur ákveðið að bónusgreiðslur til leikmanna í A-landsliðum karla og kvenna í fótbolta verði hér eftir þær sömu. Er þar átt við bónusgreiðslur sem leikmenn fá fyrir unnin stig í leikjum undankeppni EM og HM. Ákveðin upphæð er þá greidd fyrir jafntefli og hærri upphæð fyrir sigurleiki.

Hingað til hefur fyrirkomulagið milli A-landsliða karla og kvenna ekki verið það sama, en eftir breytinguna verður það hins vegar nákvæmlega það sama. Í tilkynningu frá KSÍ segir: „Um er að ræða umtalsverða hækkun á stigabónus til leikmanna A landsliðs kvenna. Því má svo bæta við að dagpeningagreiðslur KSÍ til leikmanna vegna þátttöku í verkefnum A landsliða karla og kvenna hafa verið jafn háar í báðum liðum um árabil.“

Í tilkynningu KSÍ segist sambandið jafnframt vonast til þess að fleiri knattspyrnusambönd taki sér vinnureglur KSÍ til fyrirmyndar. Viðtal við Guðna Bergsson formann KSÍ um þetta má sjá hér fyrir ofan. Þá verður Guðrún Inga Sívertsen varaformaður KSÍ gestur Kastljóss í kvöld.

Ekki hefur fengist uppgefið frá KSÍ hversu háar bónusgreiðslurnar eru, en Vísir segir að bónusgreiðslur kvennalandsliðsins hækki úr 85 þúsund krónum upp í 300 þúsund krónur á hvern leikmann fyrir sigur. Þá fái leikmenn 100 þúsund krónur fyrir jafntefli.