Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Krugman skilur ekki áhuga á evrunni

27.10.2011 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, segir að Íslendingar hafi hagnast á því eftir hrun að vera með sveigjanlegan gjaldmiðil. Þeir væru ekki eins vel staddir nú ef þeir hefðu haft evruna sem gjaldmiðil við hrun.

Krugman, sem hélt erindi í dag á ráðstefnu íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagshrunið hér á landi, segir að fyrir hrun hafi ástandið á Íslandi verið sérstaklega brjálað. Ekkert land átti að geta verið eins illa statt og Ísland eftir hrunið. Þannig hafi þetta hins vegar ekki endað.

Ísland er ekki nærri eins illa statt og við mátti búast, segir Krugman. Hann bendir meðal annars á að tekist hafi að byggja upp þokkalegt traust á ríkisfjármálum. Stóra málið sé hins vegar gríðarlega skuldir, bæði opinberar skuldir, heimila og fyrirtækja.

Krugman segir Ísland ótrúlega viljugt til að afskrifa skuldir, í það minnsta miðað við Bandaríkin. Samt sé það erfitt. Krugman varar við kenningum um að evran sé lausn til frambúðar á efnahagsvandanum.

Krugman segist velta mikið fyrir sér hvernig standi áþeim áhuga á að taka upp evruna strax, því staða Íslands eftir hrun virðist leiða betur í ljós kostina við að vera með sveigjanlegan gjaldmiðil. Ísland hefði ekki komið jafn vel út úr kreppunni og raunin hefði verið ef evran hefði verið gjaldmiðill landsins.