Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Krónutöluhækkanir komi ekki til greina

08.04.2019 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krónutöluhækkanir koma ekki greina, segir formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga sem eiga í kjaraviðræðum við ríki og sveitarafélög. Félagið krefst þess að laun verði ekki lægri en 430.000 á mánuði en segir að óskastaðan væri að laun háskólamenntaðra verði ekki undir 500.000 krónum á mánuði.

Kjarasamningar Starfsgreinasambandsins og Landssambands íslenskra verslunarmanna við Samtök atvinnulífsins voru undirritaðir á miðvikudagskvöld. En er þó ósamið við nokkur félög á almenna markaðnum. Þeirra á meðal félög iðnaðarmanna. Þau eru í samfloti í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Deilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara og er næsti fundur á miðvikudag.

Samiðn gagnrýnir að ekki hafi verið litið til lífeyrisþega í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar. Í pistli formanns á vef Samiðnar segir að það sé umhugsunarvert að ekki hafi verið reynt að tryggja víðtækari aðild og sátt. Þá hefur máli Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair verið vísað til ríkissáttasemjara. Málið er það sjötta sem kemur til meðferðar hjá ríkissáttasemjara á árinu, að því er kemur fram á vef embættisins.

Samningar flestra opinberra starfsmanna runnu úr gildi í lok marsmánaðars. Um tvö þúsund eru í Félagi íslenskra náttúrufræðinga. Maríanna Helgadóttir formaður segir að einn samningafundur hafi verið við Reykjavíkurborg. Enn vanti viðræðuáætlun við ríkið. Ekki sé horft til samninga á almenna markaðnum þar sem samið var um að laun hækki um ákveðna krónutölu í stað þess að semja um að laun hækki um ákveðna prósentutölu.

„Krónutöluhækkanir hafa ekki verið eitthvað sem okkur hefur hugnast og við höfum hafnað þeim eiginlega algjörlega. Ástæðan fyrir því að við höfnum krónutöluhækkunum er að þær fara mjög illa með launatöflur hjá okkur,“ segir Maríanna.

Félagið vilji að lægstu launaflokkarnir séu klipptir neðan af launatöflunni.

„Við erum að gera kröfu um að taflan okkar byrji ekki neðar en í 430 þúsundum. En aftur á móti er óskastaðan sú að háskólamenntaðir séu ekki lægra raðaðir í stofnanasamningum en í 500 þúsund,“ segir Maríanna.