Krónunni spáð styrkingu á næsta ári

15.11.2018 - 01:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Veikning krónunnar að undaförnu eru vegna þess að markaðurinn hefur brugðist of harkalega við, segir sérfræðingur hjá greiningadeild Arion-banka. Því er spáð að krónan styrkist á næsta ári.

Sjávarútvegsráðstefnan hófst í dag og stendur í tvo daga. Flutt verða ríflega áttatíu erindi. Sérsfræðingur hjá Arionbanka flutti erindi um sjávarútveginn og krónuna. Tekjur flestra sjávarútvegsfyrirtækja eru í erlendri mynt en kostnaðurinn í krónum.

„Ef krónan styrkist færðu færri krónur fyrir aflann til að borga þennan innlenda kostnað. Ef hún veikist færðu fleiri krónur. Þannig að það er mjög sterk fylgni milli t.d. gengis krónunnar og útflutningsverðmætis sjávarafurða,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka.

Gengisvísitala krónunnar hefur hækkað á síðustu mánuðum sem þýðir að krónan hefur veikst. Frá því í lok júlí hefur hún veikst um 15,3%, meira en spáð var.

„Ég hugsa nú að krónan, að flestum útflutningsgreinum líði ágætlega með hana eins og hún er núna. Við höfum séð gríðarlega mikla veikingu á skömmum tíma. Að okkar mati, þá hefur þessi hreyfing verið að mestu drifin áfram af væntingum, væntingum um vinnumarkaðinn og ferðaþjónustuna. Ef við skoðum bara stöðuna í hagkerfinu í dag og ég tala ekki um ef það gengur vel að semja á vinnumarkaði, þá miðað við undarliggjandi efnahagslegar stærðir, þá finnst okkur að gjaldeyrismarkaðurinn hafi brugðist of harkalega við. Þannig að við gætum mögulega séð, ef að svo maður vitni í þetta íslenska orðatiltæki: Ef allt reddast, þá gætum við mögulega séð einhverja gengisstyrkingu á næsta ári. Markaðurinn er í rauninni búinn, held ég, að verðleggja miklu verri sviðsmynd heldur en alla vega þessar grunnspár eru að segja til um,“ segir Erna.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi