Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krónprins Sáda sagður tengjast innbroti í síma Bezos

22.01.2020 - 05:55
epa07853659 Founder and CEO of Amazon Jeff Bezos participates in the unveiling of an Amazon environmental initiative entitled 'The Climate Pledge', in Washington, DC, USA, 19 September 2019. Amazon's new environmental initiative aims to meet the goals of the Paris environmental agreement ten years early, or in 2040. Amazon has acquired one hundred thousand new electric delivery vehicles as part of that aim.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
Jeff Bezos er ríkastur allra. Mynd: epa
Krónprins Sádi-Arabíu er sagður ábyrgur fyrir því að brotist var inn í snjallsíma bandaríska milljarðamæringsins Jeff Bezos, forstjóra Amazon og aðaleiganda bandaríska stórblaðsins Washington Post, í fyrra.

Snjallsími Bezos var „hakkaður" vorið 2018 þegar honum bárust skilaboð í gegnum samskiptamiðilinn WhatsApp. Í frétt The Guardian segir að boðin hafi verið send í gegnum persónulegan WhatsApp-aðgang Mohammeds bin Salmans, krónprins Sádi Arabíu. Samkvæmt heimildum blaðsins leyndist spilliforrit í skilaboðunum sem gerði utanaðkomandi aðilum kleift að komast í og sækja gögn sem geymd voru í símanum.

Áttu í „vinsamlegum samskiptum“ á WhatsApp

Þeir Bezos og bin Salman munu hafa átt í að því er virðist nokkuð vinalegum samskiptum í gegnum WhatsApp skömmu áður en myndskeið var sent frá krónprinsinum í síma forstjórans. Rannsókn sérfræðinga hefur nú leitt í ljós að spilliforritið leyndist nær örugglega í þessu myndskeiði.

Örfáum klukkustundum eftir að myndskeiðið barst í snjallsíma Bezos sóttu óþekktir aðilar mikið magn gagna þangað, segir í frétt The Guardian sem þó hefur ekki vitneskju um hvað var sótt í símann eða hvað gert var við það.

Vekur upp ýmsar spurningar

Þetta vekur hins vegar spurningar, segir í fréttinni, svo sem um hvaðan bandaríska götublaðið National Enquirer fékk upplýsingar um einkalíf og persónulega hagi Bezos, þar á meðal tölvupósta sem blaðið birti níu mánuðum síðar.

Þá gæti þetta líka leitt til þess að aftur verði farið að rýna í hvað krónprinsinn og hans nánustu ráðgjafar og starfsmenn voru að sýsla í aðdraganda morðsins á Jamal Khashoggi, blaðamanni á Washington Post, segir í frétt The Guardian.

Khasoggi var myrtur í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í október 2018, fimm mánuðum eftir að brotist var inn í síma eiganda blaðsins. Fullvíst þykir að sádiarabískir leyniþjónustumenn hafi verið að verki og líkur hafa verið leiddar að því, að það hafi verið að undirlagi krónprinsins þótt hann sverji allt slíkt af sér.