Krónan veikist þrátt fyrir höft

22.02.2012 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Tímabundið flæði gjaldeyris úr landi er skýringin á mikilli veikingu krónunnar undanfarna daga að mati sérfræðings hjá Íslandsbanka. Hugsanlega sé verið að niðurgreiða erlendar skuldir fyrirtækja eða sveitarfélaga.

Gengi krónunnar hafði verið stöðugt um nokkurra vikna skeið þar til fyrir nokkrum dögum og nú hefur gengið veikst um 1,5-2%. Það er veruleg sveifla, segir Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.

„Þrátt fyrir að höft séu á fjármagnsflutninga og verulegar hömlur á flutninga á fjármagni sem ekki tengjast viðskiptum beint, þá er vitaskuld heimilt að kaupa gjaldeyri til innflutnings á vörum og þjónustu og eins til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum. Á veturna er innflæði gjaldeyris minna en á sumrin, ekki síst vegna ferðamannastraumsins sem er mjög árstíðarbundinn. Ef það koma tímabil þar sem vaxtagreiðslur eru með meira móti, einhverjir eru að borga niður erlend lán eða innflutningur tekur stökk þá duga ekki gjaldeyristekjurnar af útflutningnum til að standa undir þessu.“

Jón Bjarki reiknar með að gengið styrkist þegar líður á árið.

„Þegar kemur fram á vorið og gjaldeyristekjur fara að skila sér í meira mæli, bæði af vetrarvertíð og ekki síður af ferðamönnum, þá ætti að vera léttara á fótinn fyrir krónuna og við höfum verið að spá því að hún styrkist þegar fer að vora en þangað til getur gengið á ýmsu.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi