Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Krónan styrkist enn

15.05.2017 - 17:23
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Krónan er sterkari gagnvart bæði evru og dollara nú en áður en tilkynnt var um losun fjármagnshafta fyrir tveimur mánuðum síðan. Pundið hefur hins vegar styrkst lítillega gagnvart krónunni. Krónan var í mikilli sókn í síðustu viku og hún hélt áfram í dag. Þessa daga styrktist krónan gegn öllum helstu gjaldmiðlum.

Greiningardeild Íslandsbanka leiddi að því líkur í morgun að þrennt eigi þátt í styrkingu krónunnar. Fyrst er nefnt að aukinn straumur ferðamanna til landsins með hverri viku geti leitt til styrkingar og að meira jafnvægi sé líklega komið á gjaldeyrisflæði vegna útflutnings sjávarafurða en var fyrstu mánuði ársins. Að auki geti það haft áhrif að útflutningsfyrirtæki þurfi að greiða opinber gjöld um miðjan mánuðinn, nokkuð sem hafi oft leitt til gjaldeyrisinnflæðis dagana á undan. Loks er nefnt að vísbendingar séu um að fjárfestingar útlendinga í íslenskum fyrirtækjum fari vaxandi. Þar er sérstaklega tekið fram að hluti þess gjaldeyris sem kom inn í landið í fyrra sé hugsanlega greiðsla sem Eyrir Invest fékk fyrir að selja erlendum fjárfesti hlutabréf í Marel. 

Fjallað er um styrkingu krónunnar í frétt á vef Financial Times í dag. Þar segir að svo virðist sem vonir um veikingu krónunnar í kjölfar afnáms hafta hafi farið fyrir lítið. Hún hafi endurheimt fyrri styrk sinn á aðeins tveimur mánuðum. Þótt krónan hafi fallið meira á einum degi við afnám hafta en dæmi voru um frá því í efnahagshruninu árið 2008 hafi krónan styrkst mjög að undanförnu. 

Bandaríkjadalur kostar 103,51 krónu í dag en var 112,33 krónur daginn sem fjármagnshöftin voru afnumin og 108,69 krónur 10. mars, síðasta viðskiptadag áður en forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og seðlabankastjóri tilkynntu um afnám hafta tveimur dögum áður en þau voru formlega afnumin. Evran kostar nú 113,54 krónur tveimur krónum minna en síðasta viðskiptadag fyrir tilkynningu um afnám hafta og sex krónum minna en daginn sem höftin voru afnumin. Pundið hefur styrkst gagnvart krónu frá síðasta viðskiptadegi fyrir tilkynningu um afnám hafta. Þá var pundið 132,21 króna en er nú 133,81 króna. Pundið fór í 136,24 krónur daginn sem fjármagnshöftin voru formlega afnumin.