Kröfum Landverndar um PCC á Bakka hafnað

23.12.2018 - 15:33
Innlent · Bakki · Norðurland · PCC · Umhverfismál
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kæru Landverndar um veitingu starfsleyfis fyrir stórfelldri kísilframleiðslu á Bakka við Húsavík. Kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka fékk starfsleyfi frá Umhverfisstofnun 8. nóvember 2017 og losunarleyfi var gefið út 2. febrúar 2018. Kærunni var hafnað með úrskurði 20. desember.

Landvernd taldi ákvörðun Umhverfisstofnunar andstæða lögum og taldi að bæði væru form- og efnisannmarkar á málsmeðferðinni. Farið var fram á í kærunni að ákvörðunin yrði ógilt. Ekki hafi verið gert umhverfismat vegna kísilversins heldur látið duga fyrra umhverfismat sem gert var vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar álvers á Bakka.

Þá eru í kærunni gerðar athugasemdir við að í áliti Skipulagsstofnunar á starfsleyfinu komi fram að nokkur neikvæð umhverfisáhrif verði af starfsemi kísilversins. Skipulagsstofnun taldi í áliti sínu að setja ætti við leyfisveitingarnar skilyrði vegna rekstursins.

Starfsleyfi kísilversins á Bakka gildir til 8. nóvember 2033. PCC er heimilt að framleiða allt að 66 þúsund tonn á ári af hrákísli í fjórum ljósbogaofnum og allt að 27 þúsund tonn af kísildufti, auk sex þúsund tonna af málmleif og gjalli. Landvernd gerði einnig athugasemdir við framleiðslumagnið í kæru sinni.

Í úrskurði úrskurðarnefndar kemur fram að ekki sé fallist á að fjallað hafi verið með ónógum hætti um athugasemdir sem gerðar voru við starfsleyfisveitinguna. Umhverfisstofnun hafi sett viðmið með viðeigandi hætti og tekið tillit til aðstæðna og reynt að tryggja gagnsæi eins og kostur er.

PCC kærði ákvörðun Umhverfisstofnunar

Úrskurðarnefndin tók einnig afstöðu til kæru PCC á ákvörðun Umhverfisstofnunar um að leggja umframgjald á vinnu við starfsleyfi kæranda fyrir rekstri kísilverksmiðjunnar. Kröfu um að ákvörðunin yrði felld úr gildi var einnig hafnað af úrskurðarnefndinni.

PCC sótti um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar í september 2014 og hófust þá strax óformleg samskipti þeirra á milli. Ári síðar var starfsleyfisumsóknin formlega tekin til álita. Þá var PCC upplýst um að vinna Umhverfisstofnunar við gerð starfsleyfa gæti reynst mun meiri en gert væri ráð fyrir í föstu leyfisgjaldi samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar.

Reikningur fyrir umframkostnaði var sendur 5. september síðastliðinn. PCC taldi að Umhverfisstofnun hafi ekki verið heimilt að leggja umframgjaldið á eftir að starfsleyfið hafi verið gefið út.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi