Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kröflulína fjögur tilbúin innan mánaðar

18.08.2017 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Nú styttist í að prófanir hefjist á raflínum til og frá Þeistareykjavirkjun. Nær öll möstur í Kröflulínu 4 hafa nú verið reist og búið er að reisa meirihluta mastra í Þeistareykjalínu 1. Spennu verður hleypt á Kröflulínu 1 í næsta mánuði.

Það eru tvær háspennulínur sem byggðar eru í tengslum við Þeistareykjavikjun og orkuöflun vegna álvers PCC á Bakka. Kröflulína 4 liggur frá Kröfluvirkjum að Þeistareykjum og Þeistareykjalína 1 liggur svo frá Þeistareykjavirkjun að iðnaðarsvæðinu á Bakka. 

Nær öll Kröflulína 4 risin

Það eru samtals 104 möstur í Kröflulínu 4. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er jarðvinnu lokið á allri línuleiðinni og öll möstur, utan þriggja, hafa verið sett saman. Gert er ráð fyrir að öll möstur nema sjö verði reist í þessarri viku. Búið er að strengja leiðara línunnar (rafstrengina) og ganga frá þeim, utan lands Reykjahlíðar. Um helgina var byrjað að strengja leiðara á því svæði.

Þeistareykjalína 1 skammt á eftir 

Í Þeistareykjalínu 1 eru 88 möstur og þar af hafa 68 möstur þegar verið reist. Auk þess hafa 10 möstur verið sett saman. Slóðagerð er lokið og búið er að ganga frá undirstöðum fyrir 87 möstur. Strenging leiðara í Þeistareykjalínu 1 hefst í byrjun næsta mánaðar.

Stutt í að spennu verði hleypt á línurnar

Það styttist í að rafmagni verði hleypt á línurnar. Landsnet gerir ráð fyrir að hægt verði að hleypa spennu á Kröflulínu 4 í byrjun september og Þeistareykjalína 1 verði tilbúin til spennusetningar í fyrri hluta október.