Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kröfðust afsagnar Bjarna

28.04.2016 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margir þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust afsagnar fjármálaráðherra þegar þingfundur hófst í morgun og að boðað yrði til kosninga. Þá gagnrýndi stjórnarandstaðan að ríkisstjórnin héldi þingstörfum áfram án þess að ræða sérstaklega málefni aflandafélaga. Bjarni Benediktsson sagði að ríkisstjórnin hlakki til að leggja hennar góðu verk í dóm þjóðarinnar. Sérstök umræða hefði farið fram fyrir skömmu þar sem ríkisstjórnin kynnti afstöðu sína varðandi aflandsfélög.

„Aflandseyjahneykslið hefur ekki aðeins orðið til þess að hæst virtur forsætisráðherra segði af sér heldur er nú farið að leiða til þess að starfsmaður flokks, framkvæmdastjórar lífeyrissjóða og ýmsir miklu lægra settir menn en fjármálaráðherra hafa ákveðið að stíga til hliðar,“ sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, við upphaf þingfundar. „En áfram situr fjármálaráðherra hér.“

Helgi Hjörvar sagði að hlegið væri að málaskrá stjórnarinnar, frá Vestfjörðum til Suðausturlands, um brýn mál sem væru rúmlega 70 talsins.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna krafðist einnig afsagnar fjármálaráðherra sem og Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ólína Þorvarðardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar. Ólína sagði að hvergi á byggðu bóli myndi það líðast að ráðherra skattamála sæti áfram við þessar aðstæður.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði stjórnarandstöðuna komna út fyrir dagskrárliðinn fundarstjórn forseta með því að ræða vantraust á fjármálaráðherra. „Það var lagt fram vantraust á ríkisstjórnina og það ver fellt.“ Bjarni sagði að ríkisstjórnin hefði boðað að ákveðnum málum yrði lokið og síðan boðað til kosninga í haust. „Fyrir því er mikill meirihluti í þinginu og það er ekki nema lýðræðislegt að fylgja því. Ef einstaka þingmenn vilja koma með vantrauststillögu á ráðherra þá skulu þeir bara gera það en ekki eyða góðum tíma þingsins í svona umræðu undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta.“

Þá sagði Bjarni að stjórnarandstaðan hefði gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að leggja fram fá mál en að nú væri gagnrýnt að málin væru of mörg. „Staðreyndin er sú að fyrir þinginu liggur heilbrigður fjöldi mála sem er langt kominn.“ Málalistinn sé eðlilegur og Bjarni hvatti til þess að þingið nýtti tímann til að klára þau mál.

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að ríkisstjórnin hefði ætlað að halda öllum málum að sér í þrjú ár til þess að kaupa sér atkvæði með skattfé á síðasta þingi kjörtímabilsins.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gagnrýndu að tími þingsins væri ekki nýttur í að taka samstundis á því meini sem aflandsfélög væru fyrir íslenskt samfélag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, sagði svo að stjórnarandstaðan hefði skorað stjórnina á hólm og tapað. Eðlilegt væri því að ríkisstjórnin kláraði sín mál. Það væri vilji kjósenda.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV