Kristnir og múslimar sameinaðir vegna Nóa

Mynd með færslu
 Mynd:

Kristnir og múslimar sameinaðir vegna Nóa

12.03.2014 - 14:27
Kristnir trúarhópar og múslimar hafa sameinast í óánægju með kvikmyndina Nóa eftir Darren Aronofsky og telja hana ekki gefa raunsæja mynd af biblíuhetjunni Nóa. Myndin verður heimsfrumsýnd á Íslandi á þriðjudaginn í næstu viku en hún var að mestu leyti tekin upp á Íslandi og í New York.

Frá þessu er greint á vef Daily Mail. Þrjú múslímsk lönd, Bahrain, Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin, hafa þegar bannað sýningar á Nóa vegna þeirrar myndar sem dregin er upp af Nóa í kvikmynd Aronofsky.

25 spámenn eru nafngreindir í Kóraninum - Nói, Abraham, Móses, Jesús og Múhammeð eru meðal þeirra og telja yfirvöld í löndunum þremur að myndin gangi þvert á það sem kennt er í Kóraninum. Búist er við að fleiri lönd fari að fordæmi þeirra.

Kristnir trúarhópar í Bandaríkjunum og Ástralíu eru einnig afar óánægðir með hvernig Nói er sýndur í myndinni.

Talsmaður eins stærsta hvítasunnusafnaðar í Ástralíu sagði í samtali við Hollywood Reporter eftir forsýningu að ef fólk búist við því að myndin fylgi hinni heilögu ritningu verði það fyrir miklum vonbrigðum. Annar áhorfandi á sömu sýningu  sagði Nóa vera sýndan sem trúarbrjálæðing. Bandarískir trúarhópar hafa lýst því yfir að þeim finnist Nóa vera of dökk persóna.

Kvikmyndaverið Paramount hefur þegar brugðist við gagnrýni á myndina - öllu kynningarefni fylgir til að mynda orðsending þar sem fram kemur að leikstjóri myndarinnar hafi tekið sér skáldaleyfi. Myndin sé engu að síður trú sögunni um Nóa og syndaflóðið sem sé hornsteinn trúar hjá milljónum manna um allan heim.

[email protected]