Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kristján Þór hugsi yfir tregðu kerfisins

22.01.2019 - 09:29
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir niðurstöðu úttektar ríkisendurskoðunar á eftirliti Fiskistofu ekki koma sér á óvart. Hann segist hugsi yfir tregðu kerfisins til þess að ráðast í breytingar á kerfinu. Kristján Þór var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun.

Úttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti Fiskistofu varpar ljósi á margvíslegar brotalamir í starfsemi hennar. Skýrslan var unnin að beiðni Alþingis. Í úttektinni er eftirlit með sjávarútveginum sagt óskilvirkt, veikburða og ekki í samræmi við lög. Fjölmargar ábendingar og tillögur að úrbótum eru tilgreindar í skýrslunni og þess er krafist að stjórnvöld grípi inn í.

Spurður hvort niðurstöður úttektarinnar hafi komið sér á óvart segir Kristján Þór: „Í sjálfu sér ekki miðað við umræðuna á umliðnum árum. Það er alveg ljóst að þetta hefur í töluverðan tíma verið í umræðunni hvernig við umgöngumst auðlindina og umræðan um brottkast kemur reglulega upp út frá einstökum tilvikum.“

Kristján Þór segir tilraunir stjórnvalda til þess að bregðast við þessum vanda hafa hlotið lélegan hljómgrunn og nefndi til dæmis myndavélafrumvarpið sem lá fyrir Alþingi nýverið þar sem lagt var til að myndavélum yrði komið fyrir á skipum í íslenska flotanum til að fylgjast með starfseminni.

„Það sem blundar efst í manni þegar maður sér þetta allt samantekið í ágætri skýrslu er hversu erfitt er að breyta kerfinu og koma á einhverri annari röð eða reglu heldur en hefur verið sett í lög. Það hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til þess á undanförnum árum og allir með nokkuð góðan vilja til þess,“ segir Kristján Þór.

„En hagsmunirnir sem eru undir, ekki bara hjá útgerðinni heldur líka hjá höfnum, útflutningsaðilum, stjórnmálamönnum eða guð má vita hverjum, allir nálgast borðið með sína hagsmuni á lofti og af einhverjum ástæðum hefur okkur ekki auðnast að ná saman um leiðir til þess að berja í bresti sem við vitum að eru.“