Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kristján Loftsson: „Einhver gúrkutíð í gangi“

12.07.2018 - 20:49
Mynd: Hard To Port / Hard To Port
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., furðar sig á þeirri athygli sem veiðar á hval, sem líklega er blendingur, hefur vakið erlendis. Hann segir ómögulegt að sjá muninn á langreyð og blendingi í sjónum.

Fjölmiðlar víða um heim hafa undanfarna daga dregið upp dökka mynd af því að veiðst hafi hvalur við Íslandsstrendur, sem líklega er blendingur steypireyðar og langreyðar. Ekki er ólöglegt að veiða slík dýr í íslenskri lögsögu, þótt ólöglegt sé að veiða steypireyðar. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segist þess fullviss að hvalurinn sé blendingur.

„Þegar þeir voru á eftir hvalnum þarna úti á sjó, þá var allt sem sást af honum sem kom upp úr sjónum eins og langreyður. Og þeir fóru á eftir honum sem langreyð,“ segir Kristján. Þegar hvalurinn var dreginn að landi hafi menn hins vegar séð að rengið og skíðin hafi ekki verið eins og á langreyð. 

Eruð þið vissir um að þetta sé hreinlega ekki steypireyður?

„Já ég er alveg sannfærður um það því að við sjáum mikið af steypireyð hérna á miðunum og þegar bátarnir keyra á blástra og svo reynist það vera steypireyður, þá er það algjörlega kristalklárt hvað er steypireyður og hvað er langreyður. Og þjálfaðir hvalveiðimenn eins og þessir sem eru búnir að vera hjá okkur í áratugi þekkja alveg muninn á því.“

Og þið mynduð aldrei veiða steypireyð?

„Nei það hvarflaði ekkert að okkur.“

Sjá muninn eftir á

Kristján furðar sig á þeirri athygli sem málið hefur vakið, enda sé þetta í fimmta skipti sem svona blendingur veiðist.

„Það er auðvitað einhver gúrkutíð í gangi og þetta er auðvitað sett fram af þessu „antí-liði“ á hinn versta hátt. Ég er örugglega búinn að tala við meirihlutann af bresku pressunni í dag og í gær; Times, Telegraph, Guardian, BBC og ég veit ekki hvað þeir heita allir. “ 

En hefur þú skilning á því að menn gagnrýni að blendingar séu veiddir?

„Það er ekki hægt að sjá það hvort þetta sé blendingur eða langreyður. Það sem þú sérð af hvalnum þegar hann kemur upp úr sjónum þegar hann er að blása er eins og langreyður. Þannig að þú sérð þetta ekki fyrr en eftir á.“

Kristján ítrekar hins vegar að gengið verði úr skugga um það með DNA rannsókn hvers konar hvalur þetta sé. Slík rannsókn sé alltaf framkvæmd í tilvikum sem þessum.

Í föstu formi

Kristján segir að hvalveiðarnar hafi almennt gengið ágætlega á þessari vertíð.

En að koma afurðum á markað, hvernig gengur það?

„Já já, það gerist einhvern tímann í haust.“

Eruð þið komnir með kaupendur?

„Já þetta hefur verið í föstu formi. Okkar erfiðleikar hafa snúist um japönsk stjórnvöld, skrifræðið í Japan. Það hefur verið dálítið erfitt.“

Ykkar markaður er fyrst og fremst í Japan?

„Já. Og hérna heima líka. Rengi og hvalkjöt.“

Hvernig er verðið á hvalkjöti núna, er það sæmilegt?

„Já það er allt í lagi. En gengið hefur farið illa með okkur eins og alla hér.“

En reksturinn ber sig?

„Já já,“ segir Kristján.