Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kristján: Alltaf hrifinn af nýjum áskorunum

11.01.2017 - 12:42
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Kristján Þór Júlíusson er annar tveggja ráðherra sem hefur stólaskipti en hann fer úr heilbrigðisráðuneytinu yfir í mennta-og menningarmálaráðuneytið. Hann sagði það leggjast ágætlega í sig. „Ég hef alltaf verið hrifinn af nýjum áskorunum og íslensk menning er fjársjóður okkar Íslendingar sem standa þarf dyggan vörð um.“

Það lá annars vel á Kristjáni Þór og hann svaraði spurningu Heimis Más Péturssonar, fréttamanns Stöðvar 2, hvort þetta væri ísfirsk spurning. „Ísfirsk spurning handa Dalvíkingi,“ svaraði Heimir Már að bragði.

Kristján sagði það annars alltof snemmt að segja til um hvaða breytingar hann ætlaði að gera og þegar hann var spurður að því hvort hann ætlaði að beita sér fyrir meiri einkavæðingu í menntakerfinu bað hann fréttamenn aðeins að slaka á - hann ætlaði að fara í ráðuneytið í dag og skyggnast þar um. „Ég ætla að byrja á því að ganga hér til stofu og svo spáum við í framtíðina.“

Heimir Már spurði þá Kristján Þór hvort norðlenskur hreimur yrði innleiddur í ráðuneytið. „Svarfdælskur,“ svaraði Kristján þá.

 

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV