Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kristján áfram sveitarstjóri í Norðurþingi

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Kristján Þór Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna, verður áfram sveitarstjóri í Norðurþingi. Samstaða er um það innan Sjálfstæðisflokks, VG og Samfylkingar, sem eru í meirihlutaviðræðum. Ekkert er í höfn með myndun meirihluta Framsóknarflokks, Samfylkingar og L-lista á Akureyri, en viðræður ganga vel. Öðrum flokkum hefur ekki verið boðið að borðinu.

Viðræður á Akureyri á fullu en ekkert í höfn

Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og L-listinn leitast nú við að halda meirihlutasamstarfinu á Akureyri gangandi eftir kosningarnar. Ekkert er þó í höfn og ætla oddvitarnir að hittast daglega út vikuna til að ná saman. Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum og Miðflokknum, sem náðu mönnum inn á Akureyri, hefur ekki verið boðið að borðinu. 

Allt útlit er því fyrir að auglýst verði eftir nýjum bæjarstjóra á Akureyri þar sem Eiríkur Björn Björgvinsson ætlar að hætta eftir átta ára setu. Allir flokkar, að Sjálfstæðisflokknum undanskildum, vilja ráða í starfið. 

Samstaða um að Kristján sitji áfram

Oddvitar Sjálfstæðisflokksins, VG og Samfylkingarinnar í Norðurþingi hófu meirihlutaviðræður í gærkvöld. Með því er verið að taka Samfylkinguna inn í gamla meirihluta Sjálfstæðisflokks og VG, sem féll, eftir að VG missti mann. Framsóknarflokkur fékk þrjá menn og E-listi Samfélagsins, klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, fékk einn mann. Samstaða er í meirihlutaviðræðum um að næsti sveitarstjóri verði úr röðum Sjálfstæðismanna, og gegnir því Kristján Þór Magnússon, núverandi sveitarstjóri og oddviti Sjálfstæðismanna, starfinu áfram.  

Í Fjallabyggð hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Betri Fjallabyggð myndað meirihluta og verður málefnasamningur kynntur í kvöld. Gunnar Birgisson verður áfram bæjarstjóri. 

Byggðalistinn afþakkaði meirihlutaviðræður

Meirihluti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði hélt velli, þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi misst tvo menn. Byggðalistanum, sem er nýtt framboð, var boðið að koma að myndun meirihluta en fulltrúarnir höfnuðu boðinu og verða í minnilhuta með VG og óháðum. Auglýst verður eftir nýjum sveitarstjóra í Skagafirði.

Nýr sveitarstjóri á Dalvík

Óbreytt ástand er í Dalvíkurbyggð með áframhaldandi meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Málefnavinna er á lokametrunum og ljóst er næsti sveitarstjóri verður annað hvort Katrín Sigurjónsdóttir, oddviti Framsóknar, eða Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, oddviti Sjálfstæðisflokks. Bjarni Th. Bjarnason, fráfarandi sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, er orðinn varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Garðabæ, en hann var í 15. sæti listans.