Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kristín Ómarsdóttir segir frá Flækingnum

Mynd: Forlagið / Forlagið

Kristín Ómarsdóttir segir frá Flækingnum

16.03.2015 - 13:49

Höfundar

Það er alveg að koma út ný skáldsaga eftir Kristínu Ómarsdóttur. Sagan heitir Flækingurinn og fjallar um utangarðsfólk í Reykjavík, fólk sem heldur sína stundaskrá upp á hvern dag, aflar sér vista og vímuefna, hugsar til foreldra og gamalla vina og langar til að eignast barn.

Flækingurinn heitir Hrafn Freyr Hrafnsson og í tengslum við hann kynnist lesandinn fjölda annarra persóna því Hrafn Freyr venur komur sínar í hús góðrar konu að nafni Laufey. Laufey verður líkt og móðir þessa stóra hóps utangarðsfólks þótt það að vera móðir sé kannski það sem hún síst vill vera. Hrafn Freyr á líka velgjörðarkonu sem notfærir sér hann ekki síður en hann hana sem og vini sem vilja ná fram hefndum í samfélaginu. 

Kristín Ómardóttir er einn frumlegasti höfundur íslenskra samtímabókmennta. Textar hennar eru tærir og tungumálið afhjúpandi. Hún er meistari þess mátulega í lýsingum á manneskjum, útliti og umhverfi. Kristín er jafnvíg á allar tegundir bókmennta og hefur hún sent frá sér jöfnum höndum ljóð og skáldsögur, leikrit og smásagnasöfn.

Flækingurinn er kannski aðgengilegasta bók Kristínar en hún er þekkt fyrir að fara á ská og skjön við hefðbundnar markalínur tvenndarkerfisins eins og fantasíu og raunsæi, hins kvenlega og karlega, góðs og ills, hins dýrslega og hins mannlega. 

Hér má hlusta á talsvert lengri gerð viðtalsins við Kristínu Ómarsdóttur en mátti heyra í þættinum Orð um bækur á rás 1 15. mars 2015