Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kristín Ómars og Kristín Eiríks tilnefndar

Mynd með færslu
 Mynd:

Kristín Ómars og Kristín Eiríks tilnefndar

21.02.2019 - 11:46

Höfundar

Kristín Eiríksdóttir og Kristín Ómarsdóttir eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019, fyrir bækurnar Elín, ýmislegt og Kóngulær í sýningargluggum.

Þrettán norrænar skáldsögur, smásagnasöfn og ljóðabækur eru tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Kristín Eiríksdóttir og Kristín Ómarsdóttir eru tilnefndar fyrir Íslands hönd til verðlaunanna í ár. Kristín Eiríksdóttir fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt. Kristín Ómarsdóttir fyrir ljóðabókina Kóngulær í sýningargluggum. Báðar bækurnar komu út árið 2017.

Í rökstuðningi dómefndar um skáldsögu Kristínar Eiríksdóttur segir að ríkjandi þemu í skáldskap hennar séu þrá eftir ást og skilningi, baráttan við sambandsleysi, einmanaleiki, misnotkun, ofbeldi og óhugnaður. „Skáldsagan Elín, ýmislegter skýrt dæmi um þetta. Þar birtist öflug rödd ungrar konu í listrænum og markvissum texta.“

Kristín Eiríksdóttir fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2017 fyrir Elín, ýmislegt.

Í rökstuðningi dómnefndar um ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur segir að frumlegar ljóðmyndir hennar séu óvæntar og stundum súrrealískar. „Í ljóðum Kristínar Ómarsdóttur lítur sakleysið út eins og skyrsletta á vegg, bréfið undir koddanum spyr: ertu þarna? Spegillinn handsamar mynd ljóðmælandans þegar hann greiðir morgunbleikt hárið, landdreymnar hafmeyjar stinga höfði upp úr sjónum, glerbrjóst eru auglýst og torgið snarað með sjóndeildarhringnum.“

Kristín Ómarsdóttir fékk ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns, Maístjörnuna, fyrir bókina.

Frekari upplýsingar um tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 má finna á vef ráðsins. Handhafi verðlaunanna verður kynntur þann 29. október í Stokkhólmi í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Kóngulær í sýningargluggum - Kristín Ó.

Bókmenntir

Elín, ýmislegt - Kristín Eiríksdóttir

Bókmenntir

„Ég hélt að þessi saga yrði ekki dramatísk“

Bókmenntir

Peð í heiminum