Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Krilli tekur inn á Gaddstaðaflötum

12.01.2016 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Kristjón Laxdal Kristjánsson hestamaður á Hellu er búinn að taka hesta sína inn í fyrsta hesthúsið í nýrri hesthúsabyggð við Gaddstaðaflatir, landsmótsstað Sunnlendinga við Hellu. „Ég er ánægður með húsið“ segir hann, „þetta hefur heppnast vel og allar áætlanir stóðust“.

Nýja hesthúsahverfið er skipulagt í næsta nágrenni við Rangárhöllina, reiðhöll hestamanna á Gaddstaðaflötum, og stóðhestahús mótssvæðisins. Með nýja húsinu færist meira líf í útreiðar á svæðinu. Þá hefur eftirspurn aukist eftir básum í stóðhestahúsinu. Nú er það næstum fullskipað, þar eru 28 básar. Margt bendir til þess að fleiri hesthús rísi á svæðinu á næstu árum. Það myndi breyta miklu fyrir þá aðstöðu sem keppendur gætu búið að.

Grafið var fyrir hinu nýja húsi Kristjóns í haust og bygging þess hefur tekið um fjóra mánuði. Það er ríflega 200 fermetrar, byggt úr límtré og yleiningum. Það er ætlað fyrir 16 hesta í eins hests steyptum stíum. Kristjón er best þekktur undir gælunafni sínu, Krilli, á meðal hestamanna. Hann er kunnur fyrir ræktun sína á Kvistum, þar sem hann var bú- og ræktunarstjóri í tæp 15 ár. Þaðan komu á þeim tíma þekktir verðlaunahestar á heimsmeistaramótum og landsmótum, eins og stóðhestarnir Muni, Ómur og Óliver frá Kvistum. Á myndunum að ofan má sjá hesthúsið utan og innan, Kristjón heldur í Lyftingu, efnilega 4 vetra hryssu úr eigin ræktun, dóttur Óms frá Kvistum.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV