Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Krefst þess að Davíð Þór víki í Landsrétti

16.10.2018 - 16:30
Mynd með færslu
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Arnars Þórs Vatnsdal Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Vilhjálmur H. Vihjálmsson, hæstaréttalögmaður, hefur krafist þess að Davíð Þór Björgvinsson taki ekki sæti í málum sem Vilhjálmur flytur fyrir Landsrétti. Davíð Þór sé vanhæfur þar sem hann hafi komið komið að samningu greinargerðar íslenska ríkisins í máli sem Vilhjálmur rekur fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Davíð segist ekki hafa samið greinargerðina heldur aðeins veitt ríkislögmanni ráðgjöf í málinu.

Vilhjálmur sendi kröfuna til Landsréttar á sunnudag. Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, staðfestir að krafan hafi borist en segir að ekki hafi verið mótuð nein afstaða til hennar. Málið fyrir Mannréttindadómstólnum snýst um það hvort dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipan fjögurra dómara við Landsrétt.

Vilhjálmur hefur sömuleiðis sent erindi til Nefndar um dómarastörf. Formaður hennar er staddur erlendis en nefndin kemur saman til fundar á þriðjudag í næstu viku.  „Hvernig getur það gengið upp að dómsvaldið sé farið að sinna lögmannsstörfum fyrir framkvæmdavaldið?“ spyr Vilhjálmur í samtali við fréttastofu.

Í bréfi sínu til Landsréttar segir Vilhjálmur að hann líti svo á að aukastarfið sem Davíð tók að sér fyrir ríkislögmann sé í eðli sínu lögmannsstarf. Því sé Davíð Þór, ásamt öðrum lögmönnum ríkislögmanns, að reka dómsmál gegn sér fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.  Á meðan svo sé geti Davíð Þór ekki dæmt í málum sem Vilhjálmur flytji fyrir Landsrétti. Þá telur Vilhjálmur að Davíð Þór hafi brotið lög með því að taka að sér þetta aukastarf og sé vanhæfur til að taka sæti í dómi í öllum málum sem Vilhjálmur flytji í Landsrétti. 

Davíð Þór staðfestir í samtali við fréttastofu að hann hafi veitt ríkislögmanni ráðgjöf í málinu. Greinargerð ríkisins sé þó ekki undirrituð af honum né beri hann á nokkurn hátt ábyrgð á henni. „Ég á enga formlega aðkomu að henni heldur var ég bara að fara yfir það með ríkislögmanni hver strategían ætti að vera.“  Engar greiðslur hafi verið inntar af hendi fyrir þessa ráðgjöf. Hann segir að ráðgjöfin myndi ekki samræmast dómarastörfum en hann hafi ekki verið tekin til starfa við Landsrétt þegar ráðgjöfin var veitt.

Davíð var skipaður dómari við Landsrétt í júní á síðasta ári. Landsréttur tók til starfa 1. janúar en Davíð Þór var veitt leyfi frá dómarastörfum til að gegna embætti setts saksóknara í Guðmundar-og Geirfinnsmálinu. Hann hafi því ekki tekið til starfa við dómstólinn fyrr en 1. október eða eftir að hann veitti ríkislögmanni ráðgjöfina.

Davíð Þór var dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í níu ár.  

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Davíð Þór Björgvinsson
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV