Krefst mats á áhrifum verksmiðju á heilsu

17.04.2019 - 06:02
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu Stakksbergs ehf. að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum kísilverksmiðjunnar í Helguvík í Reykjanesbæ. Stofnunin gerir þó nokkrar athugasemdir við matsáætlunina og tekur undir með Embætti landlæknis um að æskilegt sé að meta hvaða áhrif starfsemin hafi á heilsu íbúa.

Kísilverksmiðjan er nú í eigu Stakksbergs sem er dótturfélag Arion banka sem var stærsti kröfuhafi United Silicon. Stakksberg ætlar að ráðast í ýmsar endurbætur á verksmiðjunni og selja hana svo. 

Rekstur verksmiðjunnar var mjög umdeildur enda barst mengun frá henni og fólk fann fyrir ýmsum óþægindum og veikindum. Verksmiðjan er í rúmlega kílómetra fjarlægð frá byggð í Reykjanesbæ. 

Telja brýnt að gera lýðheilsumat

Skipulagsstofnun leitaði umsagnar Embættis landlæknis sem telur að í tengslum við fyrirhugaðar endurbætur sé æskilegt að gera lýðheilsumat. Það er notað til að meta möguleg áhrif á heilsu og líðan fólks með það fyrir augum að hámarka jákvæð áhrif og lágmarka þau neikvæðu. Fyrir utan að meta mögulega mengun í lofti, vatni og jarðvegi, megi meta áhrif á aðra þætti sem hafa beint eða óbeint áhrif á heilsu og líðan, svo sem áhrif vegna lyktar, áhrif á landslag, umferð og landnotkun.

Stakksberg telur ekki forsendur til að gera lýðheilsumat

Stakksberg segir í svari sínu að fyrirtækinu sé ekki kunnugt um að slíkt lýðheilsumat hafi verið unnið í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda hér á landi. Þar til stjórnvöld marki stefnu, reglur eða leiðbeiningar hafi fyrirtækið ekki forsendur til að gera slíkt mat.

Skipulagsstofnun tekur undir með Embætti landlæknis enda hafi margar athugasemdir borist frá íbúum sem hafi fundið fyrir óþægindum og veikindum þegar starfsemi var í verksmiðjunni. Þó að ekki sé krafist sérstaks lýðheilsumats hér á landi sé ljóst að efnislega sé mat á áhrifum framkvæmda á heilsu hluti af umhverfismati. Stofnunin krefst þess því að í frummatsskýrslu verði gerð grein fyrir áhrifum starfseminnar á heilsu og megin áhersla lögð á áhrifin vegna mengunarefna og lyktar. 

Skipulagsstofnun krefst samráðs við íbúa

Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík söfnuðu undirskriftum í kringum áramót og kröfðust þess að íbúar fengju að kjósa um framtíð stóriðju í Helguvík. Það er ekki aðeins þessi kísilverksmiðja sem gæti verið rekin þar í framtíðinni heldur einnig önnur til viðbótar á vegum Thorsil. Bæjaryfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að söfnun undirskrifta hafi ekki verið lögum samkvæmt en hafa þó ekki útilokað að íbúar fái að kjósa um málið. Það gæti gerst síðar á árinu þegar Stakksberg óskar eftir breytingu á deiliskipulagi til að ráðast í endurbætur. 

Í athugasemdum Skipulagsstofnunar segir að vinna þurfi sérstaklega að kynningu og samráði gagnvart íbúum svo að hægt verði að reka verksmiðjuna í sátt við þá. Í frummatskýrslunni þurfi að koma fram hvernig þessum þætti hafi verið sinnt og sérstök áhersla lögð á samráð um þau atriði sem íbúar hafa mestar áhyggjur af. 

Nánar má lesa um athugasemdir Skipulagsstofnunar á vef stofnunarinnar. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi