Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Krefjast tvöföldunar Reykjanesbrautar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar krefst þess að í nýrri vegaáætlun Alþingis verði gert ráð fyrir brýnum framkvæmdum við þann hluta Reykjanesbrautar sem liggur í gegnum bæinn. Bæjarstjórn samþykkti ályktun þess efnis á fundi sínum í gær.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag og haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra, að hann hafi meðtekið áskorun og áhuga Hafnfirðinga. Hann sagði þó ekki af eða á um það hvort að farið verði að vilja bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Í vinnu við samgönguáætlunina væri í forgangi að hafa umferðaröryggi í hávegum. 

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir í ályktuninni vonbrigðum með að framkvæmdir við Reykjanesbraut séu ekki hafnar. Þar segir jafnframt að álag á einfaldan veginn á þessum kafla hafi leitt til mikilla umferðartafa og sífellt fleiri slysa. Því sé ekki hægt að bíða lengur með tvöföldun brautarinnar.

Reykjanesbraut var á sínum tíma tvöfölduð frá Fitjum í Reykjanesbæ langleiðina að Straumsvík en þaðan er vegurinn einfaldur í gegnum Hafnarfjörð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir