Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefjast þess að forseti Haítí segi af sér

08.02.2019 - 08:16
Mynd:  / 
Að minnsta kosti tveir eru látnir eftir að þúsundir Haítíbúa söfnuðust saman í gær og kröfðust þess að Jovenel Moise forseti léti af völdum. Tvö ár voru þá liðin frá því að hann tók við forsetaembættinu.

Margir telja að forsetinn sé ekki starfi sínu vaxinn, þar sem honum hefur ekki orðið ágengt enn sem komið er til að bæta efnahagsástand landsins. Verðbólga er fimmtán prósent og haítíski gjaldmiðillinn hefur fallið hratt gagnvart Bandaríkjadollar að undanförnu.

Haft er eftir einum skipuleggjanda mótmælanna að ekki verði unað við ástandið lengur. Skortur sé á rafmagni og nú hafi kaupmenn ákveðið að skella í lás vegna verðbólgunnar. Margir börðu málmskálar með skeiðum til marks um að þeir ættu ekki lengur til hnífs og skeiðar.

Lögregla reyndi að sundra mótmælendum með táragasi og að skjóta úr byssum sínum upp í loft. Átök brutust út og særðust fjórtán lögreglumenn, að sögn talsmanns ríkislögreglunnar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV