Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Krefjast afsagnar forsætisráðherra Tékklands

18.11.2018 - 01:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Um 20 þúsund manns komu saman á torgi gamla bæjarins í Prag í dag til þess að kalla eftir afsögn forsætisráðherrans Andrej Babis. Babis er sagður hafa komið í veg fyrir rannsókn gegn sér, þar sem hann er sakaður um svik. Hann neitar alfarið sök og þvertekur fyrir að segja af sér.

Babis bíður atkvæðagreiðslu um vantraust gegn sér á tékkneska þinginu á föstudag. Stjórnarandstaðan kallaði eftir henni, og lítur allt út fyrir að örlög Babis í embætti hvíli hjá samstarfsflokki hans í ríkisstjórn, Sósíaldemókrötum. Samkvæmt heimildum Deutsche Welle ætla stjórnendur flokksins að ræða við Babis áður en þeir taka ákvörðun um vantraust. Milos Zeman, forseti Tékklands, segist ætla að veita Babis annað tækifæri til stjórnarmyndunar verði hann að segja af sér vegna vantrausts.

Mikill þrýstingur hefur verið á Babis síðan í fyrra vegna ákæru lögreglu á hendur honum. Honur er gefið að sök að hafa fyrir áratug breytt eignarhaldi á fyrirtæki, svo það ætti rétt á tveggja milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu, jafnvirði um 280 milljóna króna. Babis er sjálfur vellauðugur. Eignir hans eru metnar að verðmæti þriggja milljarða evra, sem gera hann að næst ríkasta manni Tékklands. Fjölskylda hans er flækt í málið, og sagði sonur hans að Babis hafi beðið hann um að vera í felum síðasta árið til þess að forðast yfirheyrslu lögreglu. Sonurinn á við geðræn vandamál að stríða, og notar Babis það í málsvörn sinni á Facebook. Hann sagði í yfirlýsingu að fjölmiðlar væru að reyna að þrýsta á lögreglu, og það væri allt saman þáttur í að rústa ferli hans og koma honum úr pólitík.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV