Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefja Geymslur um 20 milljónir króna

05.12.2018 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV
Fyrirtaka í máli þeirra sem áttu verðmæti hjá félaginu Geymslum ehf. og eyðilögðust í brunanum við Miðhraun í byrjun apríl fer fram í næstu viku. Fólkið telur sig eiga rétt á meiri bótum en þeim hefur boðist en kröfur þeirra nema samtals um 20 milljónum króna. Málsaðila greinir á um hvort samningur við Geymslur hafi verið samningur um þjónustukaup eða húsaleigu.

Guðni Á. Haraldsson rekur málið fyrir hönd stefnenda en málin eru þrjú talsins. Auk þeirra eru fjörutíu önnur mál viðskiptavina Geymslna sem sem einnig fara fyrir dómstóla ef niðurstaða þessara mála gefur tilefni til. Fréttastofa hefur afrit af einni af þessum þremur fyrrgreindu stefnum undir höndum, sem allar eru sambærilegar. Í stefnunni er þess krafist að félagið Geymslur verði dæmt til þess að greiða stefnendum skaðabætur að fjárhæð 7.959.525 króna. Auk þess er þess krafist að fyrirtækið greiði tvær milljónir króna í miskabætur og allan málskostnað.

Segja Geymslur viljandi hafa reynt að koma sér undan ábyrgð

Málsatvik eru ítarlega rakin í stefnunni. Þar segir m.a. að miðað við efni skilmála sem félagið Geymslur hafi gefið út leit svo á að um húsaleigusamning væri að ræða. Sérstaklega hafi verið tekið fram að samningurinn væri ekki þjónustusamningur og af því leiddi meðal annars að leigusali bæri ekki ábyrgð á munum sem settir væru í geymslu hjá honum. Það væri á ábyrgð leigutaka að tryggja munina ef hann kysi. Í skilmálum félagsins kom fram að eftirlitsmyndavélar væru við húsnæðið og að leigutaki væri meðvitaður og samþykkur að heimsóknir væru myndaðar og vistaðar rafrænt. Í stefnunni segir að þessir skilmálar hafi aldrei verið kynntir fyrir leigjendum Geymslna. Stefnendur líta svo á að geymsluleigan falli undir lög um þjónustukaup en ekki húsaleigu.  Með því að klæða samninga sína við neytendur í það form að um væri að ræða húsaleigusamning væri félagið Geymslur viljandi að koma sér hjá þeirri ábyrgð sem á það væri lagt með lögum um þjónustukaup.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV

Vatnsúðakerfi gert óvirkt en aldrei endurnýjað

Geymslur sendu frá sér auglýsingu árið 2005 þar sem kom fram að félagið fylgdi ströngustu öryggiskröfum með tilliti til bruna, innbrota, vatnsleka og annarra þátta í geymsluhúsnæðinu að Miðhrauni 4. Sextán öryggismyndavélar væru á staðnum og allar hreyfingar væru vistaðar á tölvu, að því er fram kemur í stefnunni.

Þá segir jafnframt að upphafleg brunahönnun hússins hafi gert ráð fyrir vatnsúðakerfi í öllu húsinu. Því hafi hins vegar verið breytt þegar Latibær hafi hafið starfsemi í húsnæðinu. Þegar Drífa hf., sem rak starfsemi undir merkjum Icewear og var með lager í húsnæðinu, flutti í húsnæðið var kerfið ekki sett upp að nýju heldur látið við það sitja að húsnæðið væri án vatnsúðakerfis. Auglýsingar þess efnis að í húsnæðinu væri fylgt ströngustu öryggiskröfum með tilliti til bruna hefðu gert það að verkum að neytendur væru í þeirri trú að eigur þeirra væru vel tryggðar og í góðum höndum, en svo hafi ekki verið. Félaginu hafi mátt vera ljóst að lager Icewear sem staðsettur var í nærliggjandi húsnæði gæti skapað eldhættu að óbreyttum brunavörnum.

Vilja afrit af upptökum og skriflegum samningi

Bréf var sent á lögmann Geymslna í júní þar sem óskað var eftir afritum af upptökum úr öryggismyndavélum. Í svari lögmanns Geymslna kom fram að ekki væri hægt að verða við þeirri beiðni þar sem upptökunum hefði verið eytt að liðnum 90 dögum frá upptöku. Í stefnunni er skorað á Geymslur að framvísa upptökunum og auk þess að félagið leggi fram skriflegan samning aðila og upplýsi nákvæmlega um þá vöktun sem hafi verið til staðar að Miðhrauni 4 og hvernig vistun slíkra upplýsinga hafi verið háttað.

Þá er það gagnrýnt að eigendum hafi ekki verið gefinn kostur á því að sækja eigur sínar heldur hafi verið fullyrt að um altjón væri að ræða án þess að það væri rökstutt frekar. Húsið hafi verið látið í hendur þriðja aðila sem hafi rifið það niður án þess að hagsmuna viðskiptavina Geymslna væri gætt. Eigur þeirra sem eyðilögðust voru að hluta til búslóð og eins arfur sem samanstóð af ýmsum verðmætum og hlutum sem höfðu tilfinningalegt gildi.