Kraftur skáldskaparins

Mynd: Neverending Story / Neverending Story

Kraftur skáldskaparins

26.09.2018 - 15:00

Höfundar

Þegar fólk hugsar um framtíðina þá sér það yfirleitt fyrir sér eitthvað jákvætt; fljúgandi bíla, geimferðalög og aðrar tækniframfarir sem munu auðvelda líf okkar á komandi árum og áratugum. En er eitthvað sem segir okkur að framtíðin muni endilega verða betri en nútíðin?

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar:

Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að vera jákvæður þegar ég hugsa um framtíðina. Ég hugsa um allt það slæma sem er í fréttum á hverjum degi; bráðnun jökla, fjöldaútrýmingu dýrategunda, uppgang Fasismans, offjölgun mannkyns og yfirvofandi vatnsskort. Ég sé sjálfan mig fyrir mér eftir 50 ár, aldraðan mann, húkandi í einhverjum helli eða neðanjarðarbyrgi í heimi sem er orðinn svo langt leiddur af loftslagsbreytingum að hann er bæði ólífvænlegur og gjörsamlega óþekkjanlegur. Fyrir utan skjól mitt blása naprir vindar yfir hrjóstrugt landslag sem er orðið óbyggilegt af sífelldum þurrkum, flóðum og hitabylgjum. Það er ekki furða að manni fallist hendur og auðvelt að missa hreinlega vonina yfir slíkum framtíðarhorfum. Því hvað get ég sem einstaklingur gert? Hvaða áhrif getur einn maður haft andspænis slíku ofurefli? Sannleikurinn er sá að ég geri lítið sem ekkert. Ég sökkvi mér ofan í bókmenntir og afþreyingu, gleypi í mig myndasögur og horfi á Netflix. Leita skjóls á lendum skáldskaparins, í mínum eigin persónulega alheimi. En skáldskapur er ekki bara til þess fallinn að flýja raunveruleikann, hann getur nefnilega einnig breytt honum.

Í bók sinni Sapiens fjallar ísraelski fræðimaðurinn Yuval Noah Harari um ástæður þess að maðurinn, eða homo sapiens, náði yfirhöndinni í dýraríkinu. Í raun er maðurinn litlu merkilegri en önnur dýr, hann er ekki gæddur neinum sérstökum hæfileikum og einn og óstuddur hefur hann lítil sem engin völd. Þó hefur maðurinn eitt umfram aðrar dýrategundir; það er hæfnina til að vinna með öðrum einstaklingum að sameiginlegum markmiðum og trúa á eitthvað honum æðra. Að sögn Harari, stafar þessi hæfni hins vitiborna manns fyrst og fremst af einum eiginleika; skáldskapnum. Harari segir „alla stórfellda samvinnu mannkynsins – hvort sem um er að ræða þjóðríki nútímans, miðaldakirkjur, forn borgríki eða forsögulega ættbálka – eiga rætur sínar að rekja til almennra goðsagna sem séu einungis til í sameiginlegu ímyndunarafli fólks.“ Hæfileiki okkar til að sameinast í gegnum skáldaðar hugmyndir hefur fært okkur frá því að vera bara ein af fjölmörgum dýrategundum sem berjast um æti og skjól yfir í drottnara náttúrunnar.

Í ágúst árið 2016 sammæltist vinnuhópur 35 vísindamanna um að lýsa ætti yfir nýju jarðsögulegu tímabili, anthropocene tímabilinu. Hingað til hefur núverandi tímabil jarðsögunnar verið skilgreint sem holocene tímabilið sem hófst fyrir um 12.000 árum við enda síðustu ísaldar. Vísindamenn WGA vinnuhópsins telja nýtt jarðsögulegt tímabil hafa hafist í kringum árið 1950, mannkynið hefur sum sé haft svo mikil áhrif á jörðina að forsenda er fyrir því að nefna nýtt jarðsögulegt tímabil eftir því, en forliðurinn anthropo kemur úr grísku og merkir maður. Tímabilið hefur enn ekki verið opinberlega samþykkt af vísindasamfélaginu en ljóst er að um stórmerkileg tímamót er að ræða; í fyrsta sinn í sögu jarðarinnar hafa gjörðir einnar dýrategundar hrint af stað nýju jarðsögulegu tímabili. Á einungis nokkur þúsund árum hefur mannkyninu tekist að breyta lífsskilyrðum allra annarra tegunda á jörðinni og hreinlega endurskilgreint sögu plánetunnar.

Og þá komum við aftur að spurningunni, hvað get ég gert? Hvað getum við sem einstaklingar gert þegar við stöndum frammi fyrir því að gjörðir tegundar okkar eru að hafa óafturkræf áhrif á allt líf hér á jörðu? Og hvar stendur skáldskapurinn í þessum efnum? Þó það sé ekki beint orsakasamhengi milli ljóða og skáldsagna og þeirra hnattrænnu breytinga sem mannkynið hefur hrint af stað þá er tengingin samt til staðar. Því sama hæfni hefur getið af sér hvort tveggja. Hæfnin til að dreyma hið ómögulega, hæfnin til trúa á eitthvað æðra; hvort sem það eru vísindi, guð eða skáldskapur. Samkvæmt málshættinum flytur trúin fjöll og stundum er það satt. En til að svara spurningunni, þá veit ég ekki hvað við getum gert. Ég ætla heldur ekki að halda því fram að skáldskapurinn geti einn og óstuddur komið mannkyninu út úr þeim ógöngum sem það hefur komið sér í. En ég leyfi mér að trúa, og jafnvel fullyrða, að hann getur og hann mun gera heiminn að betri stað, því í honum býr sami kraftur og flytur fjöllin.

Við skulum enda þetta á ljóðinu Kraftinum eftir Adam Zagajewski í þýðingu Jóns Kalmans Stefánssonar.

Krafturinn

Krafturinn sem titrar í greinum trjánna

og safa jurtanna

býr líka í ljóðunum

en þar er hann kyrrlátur

Krafturinn sem býr

í kossi og þrám

finnst líka í ljóðunum

en þó hófstilltari

Krafturinn sem vex

í draumum Napóleons

og segir honum að leggja undir sig Rússland og snjóinn

er líka í ljóðunum

en afar kyrr.

 

Pistillinn var fluttur í síðasta þætti af Hve glötuð er vor æska? á RÚV núll. Hægt er að hlusta á þáttinn, sem er helgaður framtíðinni, í heild sinni í spilaranum

 

 

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Fólksfjöldinn í tölvulandi

Bókmenntir

Þúsaldarkynslóðin kortlögð í skáldsögum

Bókmenntir

Spíttskáldin og strætóskáldin

Pistlar

Dauði hipstersins