Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kraftur í minni

Mynd með færslu
 Mynd:

Kraftur í minni

29.03.2019 - 13:21

Höfundar

Önnur breiðskífa Cell 7 heitir Is There Anybody listening og er hún uppfull af hipphoppi en líka dansvænu húsi og poppi. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Það er hægt að segja það, og án þess að blikna, að hún Ragna Kjartansdóttir (Cell7) man tímana tvenna í íslenskri tónlist, einkum hvað rappið varðar. Þar man hún tímana alla reyndar en hún var í einni fyrstu rappsveitinni sem lét að sér kveða seint á tíunda áratugnum, Subterranean. Ragna hefur allar götur síðan verið áberandi andlit og rödd í íslenskri rappkreðsu og hún reigði sig á nýjan leik tónlistarlega með Cellf (2013), nokkru áður en brast á með seinni bylgju íslensks rapps.

Þessi plata, önnur sólóplata hennar, er m.a. unnin með Gnúsa Jones, Helga Fonetik Simbol og Adda Intro Beats og sér Ragna sjálf um upptökustjórn. Elísabet Eyþórs kemur einnig við sögu sem og Röggi (gítar), Arnljótur (flautur, klarinett) og Björgvin Ragnar (baritón-saxófón). Moses Hightower-liðsmennirnir Andri Ólafs og Steingrímur Teague leggja auk þess gjörva hönd á plóg og ekki má gleyma Friðfinni Oculus Sigurðssyni sem hljóðblandaði herlegheitin.

Platan hljómar enda frábærlega. Þykkur, bjartur og kraftmikill hljómur. Og fjölbreytt er hún. Hipphopp já, en líka hreint popp og tilraunakenndar stemmur. Eftir einslags kynningarstef fáum við lagið Don‘t Care, þar sem Ragna rappar yfir fremur strípuðum bakgrunni. Ég segi ekki trapp, en samt. Megintakturinn er þessi hvassi, frumstæði Casio-taktur og svo rappar Ragna – en syngur líka – yfir. Hún hendir líka inn línunni „the only Asian in the village“ og vísar þar skemmtilega í uppruna sinn. Skemmtilegt lag og svo sveiflumst við í lagið Bad Side, hart og kalt lag, það tilraunakenndasta hér. City Lights, sem er nú c.a. eins og hálfs árs er svo næst, rocksteady-stemma sem náði miklum vinsældum á sínum tíma. Ragna tekur svo óvæntar beygjur: lagið All night er húsbundið popp, og Ragna hefur húmor og sögulega yfirsýn, þar sem hún vísar snilldarlega í Physical-lag Oliviu Newton-John. Lagið Peachy rúllar í svipuðum gír, svöl stemma og Ragna jafnhattar flutninginn, örugg og svöl. Powermoves lokar svo plötunni á einkar kröftugan hátt.

Platan er stutt en skemmtileg. Hún festist eiginlega í tækinu mínu, rúllaði endalausa hringi og aldrei leiddist mér. Það er aðlaðandi andi hérna, gáski og skemmtilegheit sem bara virka. Ég hugsaði um Robyn, sem er á svipuðum aldri og Ragna, en hún gaf út firnasterka skífu á dögunum sem sannaði að þú þarft ekkert endilega að vera á unglingsaldri til að búa til sannfærandi verk í geirum sem eru þó mjög svo æskudýrkandi. Ragna gerir þetta með stæl, líkt og sú sænska. 

Mynd með færslunni er af umslagi plötunnar sem Eysteinn Þórðarson handteiknaði og vann með Rögnu.

Tengdar fréttir

Tónlist

Í skógarlundinum

Popptónlist

Trukkað út tíunda áratuginn

Popptónlist

Dansað inn í ljósið

Popptónlist

Mjúka rappið